„Heill pakki með kostum og göllum“

Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar.
Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert

„Evrópusambandið kemur náttúrulega sem heill pakki með öllum þeim kostum og göllum sem honum fylgja,“ sagði Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins þar sem hann svaraði fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins, sem spurði um afstöðu hans til peningamála Íslands.

Vakti Silja Dögg máls á því að skipuð hefði verið verkefnisstjórn til þess að endurmeta peningastefnu Íslands. Ekki væri annað að sjá en að lagt yrði til grundvallar í þeirri vinnu að krónan yrði áfram framtíðargjaldmiðill landsins. Því hefðu nýleg ummæli Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra komið á óvart þar sem hann hefði sagt að krónan væri ekki heppilegur gjaldmiðill fyrir þjóðina.

Spurði Sillja Dögg Pawel að því hvort hann tæki undir sjónarmið Benedikts, hvort hann teldi þá ekki að breyta þyrfti starfslýsingu verkefnisstjórnarinnar, hvaða gjaldmiðil hann teldi hentugastan fyrir Ísland og enn fremur hvort það væri mat hans að annar gjaldmiðill en íslenska krónan hefði verið heppilegri til þess að ná fótfestu eftir bankahrunið 2008.

Frétt mbl.is: „Þið vitið fullkomlega hvað er í pakkanum“

Pawel svaraði því til að hann væri Evrópusambandssinni og vildi að sótt yrði um inngöngu Íslands í sambandið að undangenginni atkvæðagreiðslu. Hann myndi greiða atkvæði með því að sækja um inngöngu í Evrópusambandið og mjög líklega líka með því að ganga í sambandið. Síðan myndi hann lifa hamingjusamur þar innanborðs til æviloka með evruna.

Evrópusambandið væri einn pakki með kostum og göllum og þar með talið evrunni. Fyrir vikið væri það hans skoðun að hún væri hentugasti framtíðargjaldmiðillinn fyrir Ísland. „En við búum auðvitað við ákveðinn pólitískan veruleika. Sá veruleiki er að í þessum þingsal er það ekki meirihlutaskoðun, hún er ekki einu sinni skoðun mjög stórs hóps manna. Þess vegna þarf að leita lausna sem eru heppilegar fyrir Ísland og eru ekki undirorpnar jafnmikilli pólitískri óvissu og sú skoðun sem ég kann að hafa,“ sagði Pawel.

Fyrir vikið hefði Viðreisn lagt til að tekin yrði upp fastgengisstefna í gegnum svonefnt myntráð í kosningabaráttunni. „Það er ein af þeim lausnum sem sá verkefnishópur sem nú er að störfum mun skoða og hann ætlar að skoða framtíðarskipan myntmála á Íslandi. Ég fagna því. Varðandi orð fjármálaráðherra þá er hann fullkomlega fær um að svara fyrir þau sjálfur. En ég get tekið undir orð hans í heild, ég held að þau hundrað ár af sjálfstæðri myntsögu Íslands hafi ekki endilega verið farsæl saga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert