Hrædd um að þekkingin sé að glatast

Herdís hefur áhyggjur af því að þekkingin á slysavörnum hér …
Herdís hefur áhyggjur af því að þekkingin á slysavörnum hér á landi sé að glatast. „Það er enginn sem kann þetta lengur. Þeir sem kenndu mér eru löngu farnir eða sitja á elliheimili.“ mbl.is/Ómar Óskarsson

Slysavarnir þurfa að vera stöðugt í gangi og ekki er hægt að horfa á þær sem tímabundið verkefni. Þeir sem þeim sinna þurfa alltaf að sjá inn í framtíðina og fylgjast með hvaða þróun er í gangi hverju sinni. Þetta segir Herdís Storgaard, framkvæmdastjóri Miðstöðvar slysavarna barna, í samtali við mbl.is.

Hún segir gríðarlegan áhuga fyrir miðstöðinni m.a. erlendis frá en hópar frá 22 löndum hafa komið til Herdísar til þess að fá fræðslu. Herdís hefur hinsvegar áhyggjur af því að þekkingin á slysavörnum hér á landi sé að glatast. „Það er enginn sem kann þetta lengur. Þeir sem kenndu mér eru löngu farnir eða sitja á elliheimili.“

„Það er bara klappað á kollinn á mér“

Herdís rekur miðstöðina sem stendur við Hátún í samstarfi við tvö fyrirtæki, IKEA á Íslandi og Sjóvá. Hún segir engan skilning fyrir því að styrkja þetta verkefni af hálfu hins opinbera. „Síðan er mjálmað yfir því að það sé svo mikil aðsókn á sjúkrahúsunum. Af hverju skildi það vera, jú vegna lífstílssjúkdóma og slysa. Slysin eru ofboðslega dýr, sérstaklega í tengslum við umferðina,“ segir Herdís.

Hún segir þó góðan árangur hafa náðst í slysavörnum barna og að gullár þeirra hafi verið frá 1988 til 2000 þegar að stjórnsýslan var áhugasöm um verkefnið. „En núna hefur enginn áhuga á þessu, það er bara klappað á kollinn á mér,“ segir Herdís.

Samkvæmt nýlegri skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar er slysatíðni barna á Íslandi með því lægsta sem gengur og gerist, sem betur fer segir Herdís. „En það sem er athyglisvert er að Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni segist í þessari skýrslu vera með áhyggjur af því að þekkingin sé að glatast,“ segir Herdís. „Mér finnst það vera mikið áhyggjuefni. Það þarf ekki mikla peninga til að reka svona verkefni svo að einhver taki við af mér.“

Herdís heldur ókeypis námskeið í miðstöðinni um slysavarnir barna og segir það aðeins hægt með stuðningi fyrirtækjanna sem styrkja hana. „Sem er fáránlegt því þetta er lögboðin fræðsla sem fólk á að vera að fá,“ segir Herdís en bætir við að hún sé í góðu samstarfi við heilsugæsluna. Þar fá foreldrar afhent boðsbréf á námskeið og segir Herdís þá mæta mjög vel og séu áhugasamir. „Það er það sem gerir þetta þess virði. Ég fæ mikið hrós og er stöðugt að veita fólki ráðgjöf, foreldrum og öðrum. Meira að segja stjórnsýslan hefur samband vegna slysavarna og ég á bara að svara því en fæ ekkert í staðinn. Það er gremjulegt að fá engan styrk þar sem verkefnið er búið að sýna árangur.“

Í Miðstöð slysavarna barna er hægt að fræðast um slysahættur …
Í Miðstöð slysavarna barna er hægt að fræðast um slysahættur á heimilum. Herdís hefur tekið á móti hópum frá 22 löndum í Hátúnið þar sem miðstöðin stendur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Helstu slysin voru drukknanir

Herdís segir að það hafi gengið mjög vel að fækka dauðaslysum barna hér á landi. Lengi vel var stærsti hluti dauðaslysa barna hér á land drukknunarslys og segir Herdís ástandið hafa verið það slæmt á tímabili að 4-5 börn voru að drukkna á ári í sundlaugum landsins.

„En það var virkilega tekið á því og lögð mikil áhersla á það í mínu starfi og reynt að útrýma þessum drukknunum og nú erum við með lægsta hlutfallið í hinum vestræna heimi. Árið 1993 reyndi ég að sannfæra stjórnvöld um að þetta væri stórfenglegt vandamál sem gekk mjög erfiðlega. Ég í samstarfi við barnalækna gerði rannsókn á árunum 1983 til 1994 og okkur var satt að segja brugðið,“ segir Herdís.

„Þegar maður gerir svona rannsókn er hægt að sjá nákvæmlega hver ástæðan var hverju sinni og við skoðuðum ekki bara dauðaslysin heldur líka börnin sem voru næstum því drukknuð. Ég gat tekið þessar upplýsingar og byrjað að sjá hvar skóinn kreppti að.“

Herdís segir árangurinn í öryggismálum á sundstöðunum felast sérstaklega í …
Herdís segir árangurinn í öryggismálum á sundstöðunum felast sérstaklega í því að gefnar voru út reglur um öryggi á sundstöðum sem þróuðust í reglugerð. mbl.is/Brynjar Gunnarsson

Dæmi um að börn drukkni í pollum

Herdís segir árangurinn á sundstöðunum felast sérstaklega í því að gefnar voru út reglur um öryggi á sundstöðum sem þróuðust í reglugerð. Síðan var gefin út handbók með mikilvægum og góðum upplýsingum um hvernig reka eigi sundstaðina á öruggan hátt.

Annað sem var gert að kröfum varðandi heita potta í görðum var breytt þar sem þeir máttu ekki vera eins lágir og þeir voru fyrst þegar þeir byrjuðu að skjóta uppi kollunum í görðum landsmanna. Herdís segist stöðugt ítreka hættuna við vatn. „Það eru meira að segja til rannsóknir sem sýna að börn hafa drukknað í pollum. Það er voðalega erfitt að eiga við þetta með örðu en fræðslu. Í dag erum við með lægstu tíðni drukknana sem er stórkostlegt. Árangurinn hefur vakið mikla athygli um allan heim,“ segir Herdís. Hún segist fá mikið af fyrirspurnum hvaðanæva úr heiminum og eins og fyrr segir hefur hún tekið á móti heimsóknum frá 22 löndum í Miðstöð slysavarna barna.

Börn best geymd aftur í

Þrátt fyrir frábæran árangur þegar það kemur að fækkun drukknana sér Herdís neikvæða þróun hafa átt sér stað síðustu 7-8 ár þar sem má sjá hreinlega bakkað eða ekið yfir börn í námunda við bíla. „Það er hræðileg þróun og ég vona að umfjöllun um þessi slys verði til þess að þeim fækki og fólk gæti sín. Núna eru líka fleiri bílar komnir með bakkmyndavélar þannig að tæknin hjálpar. Annað sem ég hef séð að aukast eru slys á bóndabæjum. Fólk er að fara með kornung börn, kannski 2-3 ára í heimsókn á bóndabæi. Viljinn er góður og fólk er að gera sitt besta til að eiga gæða stundir. En stundum verð ég að tala skýrt og segja að fólk áttar sig ekki á því hvað það er að gera barninu. Það getur dottið og orðið undir græjunum, þetta eru vinnuvélar sem börn hafa ekkert erindi upp í enda er þar enginn öryggisbúnaður.“

Herdís bætir við að hún hafi einnig tekið eftir aukinni slysatíðni barna á fjórhjólum. „Þetta er kannski fjölskyldusport og börnin eru komin í þetta líka. Þarna hafa orðið mjög alvarleg slys þar sem fólk hugsar ekki hlutina til enda. Þarna er virkilega verið að bjóða hættunni heim, við vitum hvað þessi tæki eru hættuleg fyrir fullorðna, hvað þá börn.“

Annað sem Herdís nefnir er það að börn séu látin sitja í framsæti bifreiða, öryggisbúnaðalaus. „Það er ofboðsleg tilhneiging hérna að um leið og börn byrja í skóla fá þau að sitja í framsætinu. Þetta er mjög slæmt. Barnslíkaminn þoli ekki höggið ef það verður árekstur framan á. Börn eru best geymd aftur í í öryggisbúnaði,“ segir Herdís.

Stórhættulegar hnapparafhlöður

Aðspurð um hættur sem leynast á heimilum segir Herdís alltaf nýja hluti að koma á markað. „Það sem er mesta ógnin núna og fyrir næstu ár eru hnapparafhlöðurnar sem eru komnar í mjög mikinn húsbúnað,“ segir hún og nefnir fjarstýringar, vigtir og rafkerti sem dæmi. „Þetta eru ekki hefðbundnar rafhlöður en þær eru stórhættulegar. Hættan er sú ef þau gleypa þær, það er ekki það að þau kafni, heldur innihalda rafhlöðurnar lithitum sem að brennur allt. Vélindað á þeim er svo litið og grannt og hnapparafhlöður geta fests þar og ef plús hliðin sem gefur straum er virk gneistar inni í barninu og rafhlaðan byrjar að brenna sig í gegn.“

Herdís segir barnið geta verið einkennislaust í 1-2 sólarhringa eftir að það gleypir hnapparafhlöðu. „Það er það sem er sérstaklega óhugnanlegt. Börn hafa dáið í Evrópu og Bandaríkjunum og hafa þau þá alltaf verið án allra einkenna. Eitt barn sem dó í Frakklandi hafði farið tvisvar til læknis en ekkert fannst að því.“

Hún segir að fólk þurfi að geyma þessar rafhlöður í læstum hirslum en passa einnig upp á söfnunarkassa fyrir notaðar rafhlöður. „Fólk þarf að átta sig á að hnapparafhlöður eru alveg jafn eitraðar þó það sé búið að nota þær.“

Gardínusnúrur geta verið lífshættulegar börnum.
Gardínusnúrur geta verið lífshættulegar börnum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Geta fengið eldavélar ofan á sig

Annað sem Herdís segist ræða við foreldra oft í viku eru gardínur með snúrum og mikilvægi þess að festa öll húsgögn við vegg.

„Það eru enn tugþúsundir heimila hér á landi með gardínur með snúrum sem eru ekki fastar. Það er bara spurning hvenær barn deyr. Það er ekkert mál að fara í byggingaverslun og fá festingu fyrir snúrurnar. Börnum finnst svo gaman að horfa út um gluggann og þar myndast þessi hætta útaf snúrunni. Börnin máta hana um hálsinn, gleyma sér og hoppa niður.“

Herdís ítrekar síðan mikilvægi þess að festa öll húsgögn við vegg og nefnir sérstaklega frístandandi eldavélar í því samhengi. „Þær eru alveg gríðarlega þungar og því er mikilvægt að festa þær. Það þarf ekki annað en að kíkja aftan á þær og sjá göt fyrir festingar. Ljótustu slysin sem hafa orðið með eldavélar eru þannig að ekki eru börnin aðeins að fá hryllilega þungan hlut yfir sig heldur hefur verið matur í suðu á sama tíma. Þá erum við að tala um áverka plús alvarlegan bruna. Þetta er mjög alvarlegt mál því ég veit að það eru margir með þetta laust.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert