Farið yfir málin á morgun

Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda.
Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Við munum bara fara yfir þessi mál á morgun,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, í samtali við mbl.is inntur eftir viðbrögðum við viljayfirlýsingu bæjarstjórnar Akraness sem samþykkt var einróma á bæjarstjórnarfundi í dag um uppbyggingu hafnarmannvirkja til þess að koma til móts við þarfir fyrirtækisins vegna starfsemi þess á staðnum.

Vilhjálmur segist að öðru leyti ekki geta tjáð sig mikið meira um málið en fulltrúar HB Granda munu funda síðdegis á morgun með verkalýðshreyfingunni og bæjaryfirvöldum. Eftir þann fund verður tekin endanleg ákvörðun af hálfu fyrirtækisins um það hvort botnsfiskvinnslu þess á Akranesi verður lokað en við það munu 93 störf verða lögð niður.

Vilhjálmur segir aðspurður að vissulega sé um að ræða jákvætt útspil af hálfu bæjarstjórnarinnar til þess að koma til móts við þarfir HB Granda. Hefur bæjarfélagið óskað eftir því að fyrirtækið fresti áformum sínum um mánuð vegna þessa útspils. Vilhjálmur ítrekar að málið verði skoðað á morgun og ákvörðun síðan tekin í kjölfarið eftir fundinn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert