WOW Cyclothon safnar áheitum fyrir Landsbjörg

Guðjón Guðmundsson varaformaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Brynja Jónsdóttir í Hjálparsveit skáta …
Guðjón Guðmundsson varaformaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Brynja Jónsdóttir í Hjálparsveit skáta í Kópavogi, Skúli Mogensen forstjóri WOW air og stofnandi WOW Cyclothon, Lilja Rut Víðisdóttir í Hjálparsveit skáta í Kópavogi, Magnús Ragnarsson framkvæmdastjóri miðlun og markaða hjá Símanum og stofnandi WOW Cyclothon, Brynja Ingólfsdóttir í Hjálparsveit skáta í Kópavogi og Jón Svanberg Hjartarson framkvæmdastjóri Landsbjargar. Ljósmynd/Sigurjón Ragnar

WOW Cyclothon hjólreiðakeppnin verður haldin í sjötta sinn dagana 20.-23. júní. Í ár munu öll áheit sem keppendur safna renna til Slysavarnafélagsins Landsbjargar en sjálfboðaliðar félagsins bera uppi leitar- og björgunarstarf í landinu, auk þess að sinna viðamiklum slysavörnum á landsvísu. Það sem færri vita er að hjól eru í vaxandi mæli notuð við björgunar- og leitarstarf Landsbjargar og það er því viðeigandi að einn stærsti hjólreiðaviðburður landsins styrki þetta verðuga starf.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá WOW.

„Það er okkur mikill heiður að geta haft milligöngu um það að styrkja þetta mikilvæga starf sem björgunarsveitir og slysavarnadeildir sinna um land allt“, er haft eftir Skúla Mogensen forstjóra WOW air.

„Það er mikil viðurkenning á fórnfúsu starfi sjálfboðaliðanna okkar að Slysavarnafélagið Landsbjörg hafi verið valið til að taka við þeim áheitum sem safnast í WOW Cyclothon nú í ár. Þótt starf okkar sé borið uppi af sjálfboðaliðum er rekstrarkostnaður björgunarsveitanna mikill. Áheitunum á liðin og einstaklingana sem taka þátt WOW Cyclothon verður vel varið, samfélaginu til heilla,“ segir Guðjón Guðmundsson, varaformaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Slysavarnafélagið Landsbjörg eru landssamtök björgunarsveita og slysavarnadeilda á Íslandi. Á útkallslista félagsins eru um 4.200 karlar og konur um land allt sem eru reiðubúin til að leggja á sig mikla vinnu, oft við erfiðar aðstæður, alla daga ársins.

Þúsund hjólreiðamenn í hundrað liðum

WOW Cyclothon hefur jafnan verið vel sóttur viðburður en á síðasta ári tóku um þúsund hjólreiðamenn í hundrað liðum þátt í keppninni. Áheitasöfnunin er stór hluti af keppninni og hefð er fyrir því að ljá góðu málefni lið en síðustu ár hefur til dæmis verið safnað fyrir Hjólakraft og Batamiðstöð á geðsviði Landspítalans.

Keppendur í WOW Cyclothon hjóla ýmist einir hringinn í kringum landið eða í fjögurra eða tíu manna liðum þar sem hjólað er með boðsveitarformi. Leiðin liggur um Þjóðveg nr. 1 með nokkrum undantekningum og þurfa lið að hjóla alla 1.358 kílómetrana á innan við 72 tímum en einstaklingar á 84 tímum.

Skráning í WOW Cyclothon er hafin á heimasíðu keppninnar; http://www.wowcyclothon.is/ og lýkur 30. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert