Aprílgöbb um víða veröld

Ljósmynd/samsett

Líklega hefur ekki farið fram hjá neinum að í dag er 1. apríl, alræmdur dagur þar sem leyfilegt er að gabba og tilraunir gerðar til að láta fólk hlaupa apríl. Ótal misgóð aprílgöbb skutu upp kollinum hérlendis sem erlendis í dag en mbl.is tók saman brot af því besta. 

Aprílgabb mbl.is í ár fjallaði um meint svar húsgagnarisans IKEA við komu Costco til Íslands. Í gabb-fréttinni segir að IKEA muni bjóða upp á aðild að verslun sinni fyrir 1.990 krón­ur á ári. Þeir sem skrá sig í dag fái hins veg­ar fyrsta árið frítt auk þess sem ókeyp­is máltíð, heimsend­ing og sam­setn­ing á vöru fylg­i með. Ekki létu allir blekkjast en einhverjir þó og um 1.300 höfðu í kvöld skráð sig í gegnum slóð sem fylgdi fréttinni og óskað eftir aðild að IKEA-klúbbnum.

Fréttavefurinn Siglfirðingur.is flutti fréttir af því í morgun að eflaust hafi þeir sem áttu leið upp Saurbæjarás í morgun rekið upp stór augu. Þar hafi nafninu á Héðinsfjarðarskiltinu verið breytt en þar stæði nú með skýru letri „Stúlknagöng“.

Skjáskot/Siglfirðingur.is

Fréttamaður Siglfirðings.is mun hafa náði tali af formanni bæjarráðs Fjallabyggðar, Steinunni Maríu Sveinsdóttur, og spurt nánar út í þetta nýja nafn. Steinunn María hafi lýst því svo að þetta hafi komið til af því að Jafnréttisstofa á Akureyri hefði lengi gert athugasemd við það, að á sama tíma og göngin sem liggja norðvestur úr Siglufirði skuli vera kölluð Strákagöng, ætti að vera skýlaus krafa að hin nýju bæru nafn hins kynsins.

Fann skúffufé í skúffu

„Sá á fund sem finnur.“ Þannig hljóða fyrstu orð fréttar Vísis en þar er rætt við útilegumanninn Tryggva Gunnar Hansen sem mun hafa dottið í lukkupottinn þegar hann fann flennistóra ávísun upp á 46,5 milljónir Bandaríkjadala í leynihólfi í skúffu í gömlu skrifborði í Góða hirðinum.

Tryggvi hafi samstundis áttað sig á því hvaða peningar væru þarna á ferðinni, hér væri fundinn hagnaðurinn af kaupum Ólafs Ólafssonar á Búnaðarbankanum árið 2003. Peningarnir hafi runnið á sínum tíma til skúffufélagsins Dekhill Advisors á Tortóla en ekki var vitað hvað síðan varð um peningana. Í aprílgabbi Vísis segir meinti útilegumaðurinn Tryggvi, að vissulega hafi verið spaugilegt að hann hafi fundið peninga úr skúffufélagi, einmitt ofan í skúffu.

Helíum kók og Dominos inn um bréfalúguna

1. apríl var einnig fagnað í útlöndum en margir erlendir miðlar tóku þátt í gríninu og hafa tekið saman lista yfir besta grínið.

Lesendur breska blaðsins Telegraph hafa líklega rekið upp stór augu þegar fregnir bárust af því að ísbirnir hefðu sést á vappi í Skotlandi. Líklega væri um að ræða afleiðingar loftslagsbreytinga og bráðnunar íss á norðurskautssvæðinu sem dýrin þyrftu að flýja.

skjáskot/Telegraph

Þá kynnti Coca-Cola til sögunnar í dag nýtt „Coca-Cola Helium“. Mun hinn nýi drykkur smakkast nákvæmlega eins og hinn klassíski kóladrykkur sem flestir þekkja en er þeim eiginleikum gæddur að neysla drykkjarins hefur sömu áhrif á röddina og þegar maður dregur inn í sig loftið úr helíum-blöðru.

„Leynibrúðkaup Harrys“ segir fyrirsögn á blaðsíðum 6-7 í breska dagblaðsinu Daily Mail í dag. Þar eru birtar myndir af meintu brúðkaupi Harry Bretaprins og unnustu hans, leikkonunni Meghan Markle. Glöggum lesendum blaðsins þótti þó undarlegt að stórfrétt sem þessi væri falin inni í blaðinu en ekki varpað upp á forsíðu. Við nánari athugun kom þó í ljós að nauðalík eftirherma Harrys og dökkhærð kona í brúðarkjól sátu fyrir á myndunum.

Sumar hugmyndir eru betri en aðrar en Daily Express birti jafnframt frétt þess efnis í dag að pizza-risinn Dominos hefði í hyggju að kynna til sögunnar nýja gerð af bréfalúgu eða póstkassa sem héldi pizzum heitum allt upp í 12 klukkustundir. Þannig væri hægt að fá heimsenda pizzu beint í gegnum bréfalúguna. Þeir sem flettu lengra í blaðinu urðu þó fyrir vonbrigðum þegar þeir komust að sannleikanum.

Skjáskot/Telegraph

Verslunarkeðjan Iceland kynnti einnig „nýja vöru“ á markað í dag. Frosin blóm. „Blóm jafnfersk og þau voru daginn sem þau voru tínd.“ Gott grín þarna á ferðinni en ekki fylgir sögunni hvort einhver hafi hlaupið út í búð eftir frosnum blómum.

Eurovision-aðdáendum sem ekki sáu í gegnum þetta aprílgabb hefur væntanlega brugðið nokkuð í brún. „Bretland mun draga sig úr keppni í Eurovision,“ tilkynnir BBC. Aðdáendur keppninnar þufa þó ekki að örvænta, Bretar eiga sitt fasta sæti í keppninni og munu senda sinn fulltrúa til Úkraínu í maí.

Trump-turn mun rísa á Írlandi og verður tilbúinn í lok næsta árs, nánar tiltekið í Dublin, samkvæmt írska miðlinum Irish Times í dag. Talsverður metnaður hefur verið lagður í þetta gabb en einhver tók sig til og skrifaði falskt tíst á Twitter í nafni Donalds Trump: „Keypti lítinn turn í Dublin á Írlandi. Við ætlum að byggja geggjað hótel í Dublin. Það verður algjörlega frábært. Ég elska Írland! Frábært land! #trumpdublin,“ segir í heimatilbúna tístinu.

„Breska hernum verður úthlutaður nýr þéttbýlis-felulitur,“ segir einn sniðugur Twitter-notandi og slær upp mynd af hermönnum í óvenjulegum einkennisbúningum þar sem felulitur búninganna líkist heldur múrsteinum en hinu hefðbundna felulitamynstri.

Þá gabbaði sendiráð Þýskalands í London fylgjendur sína á Twitter þar sem greint var frá því að áður en langt um líður muni Þjóðverjar kjósa um að „fara“ eða „vera“ í tímabeltinu sem landið tilheyrir, CET (e. Central European Time).

Fleiri brandarar voru á ferðinni sem tengjast Evrópusambandinu en breski miðillinn Express flutti frétt þess efnis í morgun að leiðtogar Evrópusambandsins hafi nú leynilegar fyrirætlanir á teikniborðinu um að fyrirskipa öllum aðildarríkjum sambandsins að bæta stjörnunum úr fána sambandsins við sinn eigin þjóðfána.

Skjáskot/Telegraph

Margir miðlar tóku ekki þátt

Fréttastofa RÚV greindi frá því í kvöld að hún muni ekki láta landsmenn hlaupa apríl í þetta sinn. Byggir ákvörðun Rúv á því að fjölmiðlar víðs vegar um heiminn hafi tekið sömu ákvörðun í þeim tilgangi að sporna við falsfréttum sem mikið hafa verið til umræðu að undanförnu.

Fjölmiðlar í Noregi og Svíþjóð, meðal annars NRK, VG og Aftenposten, slepptu því einnig að taka þátt í hinu hefðbundna aprílgabbi og það gerðu dönsku miðlarnir DR, TV2, Kristelige Dagblad og Berlingske einnig svo dæmi séu nefnd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert