Dagur: Mér finnst þetta ódýrt

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir þéttingu byggðar fremur en útþenslu …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir þéttingu byggðar fremur en útþenslu vera lausnina. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Mér finnst þetta ódýrt. Hann er nýfarinn af stað með ríkisstjórn sem gleymdi húsnæðismálum í stjórnarsáttmálanum,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Silfrinu á RÚV í morgun þegar hann var spurður út í ummæli forsætisráðherra um að Reykjavíkurborg þurfi að gyrða sig í brók.

Frétt mbl.is: Reykjavík verði að gyrða sig í brók
 
„Bjarni er úr Garðabæ þar sem heildarfjöldi íbúða er um 5.300 og við erum að skipuleggja einn Garðabæ. Frá 2015 til 2020 sjáum við fyrir okkur að um 7.000 íbúðir fari í uppbygginu, það er eins og Garðabær og Seltjarnarnes til samans. Við erum með sérstaka áherslu á samvinnu við upppbyggingaraðila sem eru ekki að byggja í hagnaðarskyni,“ sagði Dagur. „Markaðurinn mun ekki leysa þetta, alla vegana ekki fyrir alla.“

Vandinn dýpri en lóðaskortur

Dagur talaði um að áherslan væri á þéttingu byggðar í stað þess að þenja borgarmörkin til að falla ekki í gildru sem aðrar borgir hafa fallið í. 

„Við erum að dreifa reitunum þannig að umferðin dreifist, það verði minni mengun, að skólakerfið gangi upp. Við erum að reikna út bestu leiðirnar til að þróa Reykjavík. Ef við höldum áfram að þróa út á við þá föllum við í sömu gildru og svo margar borgir.“

Hafa beðið eftir ríkinu

Hann sagði að vandamálið væri flóknara en svo að lóðaskortur væri eina rótin. 

„Ef við setjum allar þessar lóðir á markaðinn og markaðurinn ræður verðinu þá myndu allir aðilar reyna að ná í hæsta verð. Það þarf að vera með félagslegar og róttækar áherslur í húnsæðismálum til að það verði húsnæði fyrir alla,“ sagði Dagur og endaði þáttinn á því að tiltaka það sem ríkið getur gert til að leysa húsnæðisvandann. 

„Við höfum beðið í fjögur ár eftir að ríkið leggi fram lóðir á besta stað í bænum. Landhelgisgæslureiturinn, Stýrimannaskólareiturinn, Veðurstofurhæðin. Ég segi við Bjarna Benediktsson, af hverju förum við ekki saman í að þróa þessa reiti? Við erum til, þarna er hægt að bæta 800 íbúðum hratt við þær áætlanir sem fyrir eru. Í öðru lagi þarf að hækka húsnæðisbætur og í þriðja lagi þarf að skoða endureisn kaupleigukerfisins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert