Lögreglan réðist í skógarhögg

Rútan mætti bíl og vék út í kant með þeim …
Rútan mætti bíl og vék út í kant með þeim afleiðingum að kanturinn gaf sig. Ljósmynd/Ragnhildur Sævarsdóttir

Greiðlega gekk að hjálpa bresku skólabörnunum út úr rútunni sem rann út af Þingvallavegi á fjórða tímanum í dag. 45 farþegar voru í rútunni, sem var á leið í austur, að Laugarvatni, þegar hún mætti bíl og vék út í kant með þeim afleiðingum að kanturinn gaf sig.

Vegna mikils trjágróðurs sem var í vegkantinum var ekki hægt að opna dyr rútunnar svo farþegar komust í fyrstu ekki út úr rútunni. Lögregla réðist því í skógarhögg svo unnt væri að hleypa börnunum út en þau eru stödd hér á landi í skólaferðalagi. Önnur rúta mætti strax á staðinn og keyrði hópinn áfram á áfangastað en samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Suðurlandi urðu engin slys á fólki og allir héldu ró sinni.

Nokkurn tíma tók að því loknu að koma rútunni aftur upp á veg en stór vörubíll á vegum rútufyrirtækisins og grafa frá bóndabæ í nágrenninu voru notuð við verkið. Alls tók ferlið um þrjá klukkutíma. Tilviljun réði því að lögreglan var stödd á svæðinu þegar ölvaður ökumaður átti leið hjá. Var hann handtekinn á staðnum fyrir ölvunarakstur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert