17 ára í gæsluvarðhald eftir hnífstungu

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir mennina vera 17 ára og ekki …
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir mennina vera 17 ára og ekki þekkta af lögreglu. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðsdómur hefur fallist á fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir öðrum mannanna sem grunaðir voru um að hafi veitt manni lífs­hættu­leg­an áverka á veitingastað á Smáratorgi í Kópa­vogi í gær­kvöldi.

Að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns í rann­sókn­ar­deild Lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu, var farið fram á gæsluvarðhald  yfir manninum á grundvelli almannahagsmuna, sem felur í sér að maðurinn er ekki í einangrun, heldur er hann vistaður á almennri deild.

Hinn maðurinn hefur verið látinn laus úr haldi, enda telst hann ekki tengjast málinu með þeim hætti að ástæða sé til að hafa hann lengur í haldi.

Mennirnir eru ungir að árum, báðir 17 ára, að sögn Gríms og er málið því einnig í höndum barnaverndaryfirvalda. Hann segir þá ekki vera þekkta af lögreglu, en talið sé að þeir hafi verið undir áhrifum einhverra efna þegar árásin var gerð. „Það er það sem er til rannsóknar núna,“ segir hann og kveður nú vera beðið eftir niðurstöðum sýnatöku.

Ekkert hefur hins vegar skýrst varðandi tildrög árásarinnar og skýrslutaka af fórnarlambinu, sem komið er úr lífshættu, veitti engar frekari skýringar.

Búið er að tala við töluverðan fjölda vitna sem voru á veitingastaðnum þegar árásin átti sér stað og eins er verið að kanna hvort upptökur finnist úr eftirlitsmyndavélum.“ Nú er verið að safna þeim gögnum sem þarf, en rannsóknin er langt komin,“ segir Grímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert