Lokað á frekari stóriðjustarfsemi

Ljósmynd/Reykjanesbær

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum í gærkvöldi nýtt aðalskipulag fyrir bæinn þar sem ekki er gert ráð fyrir frekari mengandi stóriðju á svæðinu við Helguvík umfram það sem þegar hefur verið samþykkt.

Þetta upplýsti Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun þar sem rætt var um mengun frá kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík. 

Lýst var áhyggjum af mengun frá kísilmálmverksmiðjunni á fundinum og tók Friðjón undir þær. Hins vegar sagði hann að þegar Reykjanesbær hefði einu sinni úthlutað lóð undir slíka starfsemi væri sveitarfélagið þar með í raun komið til hliðar. Þá tækju eftirlitsaðilar við. Það sem Reykjanesbær gæti fyrst og fremst gert væri að koma áhyggjum á framfæri.

Spurður hvort Reykjanesbær gæti gripið til einhverra þvingunarúrræða sagði Friðjón svo ekki vera í þessu tilfelli nema varðandi mál sem sneru beint að sveitarfélaginu.

map.is
map.is map.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert