Mannleg mistök fimmfölduðu magnið

United Silicon í Reykjanesbæ.
United Silicon í Reykjanesbæ. Ljósmynd/United Silicon

Mannleg mistök hjá rannsóknarstofu ALS Global í Svíþjóð urðu til þess að niðurstöður sýndu fimmfalt meira magn arsens og annarra efna í sýnum úr mælistöðinni við Hólmbergsbraut, skammt frá verksmiðju United Silicon í Reykjanesbæ, en raunverulega voru í sýnunum.

Samkvæmt yfirlýsingu frá ALS virðast mistök hafa verið gerð við þynningu sýnanna.

Niðurstöður úr mælingum sl. haust gáfu til kynna að magn arsens í andrúmsloftinu hefði verið á bilinu 6-7 ng/​m3 en samkvæmt sýnum sem tekin voru áður en verksmiðjan tók til starfa, og á tímabilinu janúar til mars 2017, reyndist magn arsens rétt rúm­lega 1 ng/​m3.

„Við skoðun hjá ALS hefur komið í ljós að mannleg mistök hjá þeim leiddu til þess að sýnin sem send voru til Svíþjóðar voru greind með fimmfalt hærra magn málma en raun var.

ALS hefur sent frá sér yfirlýsingu (sjá viðhengi) þar sem þeir harma þessi mistök og árétta að þeir muni fara yfir sína verkferla til að fyrirbyggja slík mistök í framtíðinni,“ segir í tilkynningu frá Orkurannsóknum, sem sjá um sýnatökuna fyrir United Silicon.

„Orkurannsóknir ítreka að fyrirtækið fylgir ýtrustu gæðaferlum og viðheldur viðurkenndum vinnubrögðum við umhverfis- og efnamælingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert