Spá 14 stiga hita

Veðrið kl. 12 á hádegi í dag, laugardag.
Veðrið kl. 12 á hádegi í dag, laugardag. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Í dag er spáð skúrum eða slydduéljum á höfuðborgarsvæðinu. Úrkomulítið verður á Norðurlandi og þar verður einnig hlýjast í dag.

Í spá Veðurstofu Íslands fyrir næsta sólarhring segir að í dag verði suðaustlæg átt, víða 8-15 m/s, en hægari vindur í kvöld. Spáð er skúrum eða slydduéljum en þurrt verður að mestu norðvestan til. Búast má við rigningu eða súld austanlands.

Svipað vindafar verður á morgun með rigningu sunnan- og vestanlands en úrkomulítið verður á Norðurlandi. Hiti í dag yfirleitt 3 til 12 stig að deginum, hlýjast norðan heiða.

Á höfuðborgarsvæðinu er spáð suðaustan 8-13 m/s og skúrum eða slydduéljum. Hæg norðlæg eða breytileg átt í kvöld og til morguns. Hlýnar og gengur í suðaustan 5-10 m/s seinnipartinn og áfram dálítil væta. Hiti 1 til 10 stig, hlýjast síðdegis á morgun.

Veðurvefur mbl.is

Veðurspá næstu daga er þessi:

Á morgun, sunnudag:
Austan 8-15 m/s, hvassast við ströndina. Víða rigning, en yfirleitt þurrt norðanlands. Hiti 6 til 14 stig, hlýjast á Norðurlandi.

Á mánudag:
Austan 10-18 m/s, hvassast við suðurströndina. Rigning eða súld en úrkomulítið norðaustan til. Lægir heldur seinnipartinn. Hiti 3 til 10 stig.

Á þriðjudag:
Suðaustan 13-20, hvassast suðvestan til, og víða rigning eða súld, en bjart með köflum norðaustan til. Milt í veðri, einkum norðan heiða.

Á miðvikudag:
Suðaustanátt, 5-13 m/s norðaustantil en 8-15 m/s annars staðar. Víða súld eða rigning um landið sunnan- og vestanvert en bjartviðri norðaustanlands. Hlýtt í veðri, einkum norðaustan til.

Á fimmtudag:
Suðlæg átt með þokulofti eða súld sunnan og vestan til, en víða bjartviðri norðanlands. Áfram hlýtt í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert