„Óumdeilt að endurheimt votlendis gagnast“

Bjarni Benediktsson segir að þótt erfitt geti verið að fá …
Bjarni Benediktsson segir að þótt erfitt geti verið að fá áhrif framræsingar viðurkennd alþjóðlega verði slíkar aðgerðir hluti af aðgerðaráætlun innanlands við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í nýundirritaðri samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í loftslagsmálum er nokkur áhersla lögð á áhrif af endurheimts lands og snúa við framræslu votlendis síðustu áratugina. Slíkar aðgerðir hafa þó verið umdeildar og áhrif þeirra á að binda kolefni sögð skorta vísindalegar sannanir.

 „Við erum þeirrar skoðunar að það sé ótvírætt að endurheimt votlendis geti lagt þungt lóð á vogaskálarnar. Það er hins vegar ákveðinn ágreiningur um það að hvað miklu leyti slík eigi að telja á móti alþjóðlegum skuldbindingum,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í samtali við mbl.is.

Í þessu til að ná árangri fyrir mannkynið

Hann segir það þó ekki breyta því að ríkisstjórnin telji að það geti skilað árangri og þá skipti ekki máli hvort slíkt sé alþjóðlega viðurkennt. „Við hljótum að vera í þessu ekki eingöngu til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar, heldur til að ná árangri fyrir mannkynið,“ segir Bjarni og bætir við að óháð því hversu þungt slíkar aðgerðir muni vega á móti alþjóðlegum skuldbindingum þá verði þær hluti af aðgerðaráætlun innanlands í þessum málum.

„Ég tel það óumdeilt að endurheimt votlendis gagnast til að draga úr losun óæskilegra lofttegunda vegna gróðurhúsaáhrifa og þess vegna horfum við til þessarar leiðar,“ segir Bjarni og bætir við að einnig sé horft til landgræðslu og skógræktar.

Deildar meiningar um gagnsemi framræsingar

Í samstarfsyfirlýsingunni sem var undirrituð í dag kemur eftirfarandi fram um framræsingu lands: „Vegna stórfelldrar landeyðingar í gegnum aldirnar og framræslu votlendis síðustu áratugina hefur Ísland mikla möguleika á að draga úr losun frá landi og binda kolefni á ný í jarðvegi og gróðri.Ísland vinnur markvisst að endurheimt raskaðra vistkerfa og fékk fyrir nokkrum árum alþjóðlega viðurkenningu á því að mótvægisaðgerðir eins og landgræðsla og vernd og endurheimt votlendis eru formlega metin sem loftlagsaðgerðir innan loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.“

Meðal þeirra sem hafa lýst efasemdum um gagnsemi og hversu raunhæfur kostur framræsing er eru meðal annars þeir Aðal­steinn Sig­ur­geirs­son, fag­mála­stjóri Skóg­rækt­ar­inn­ar, Þröst­ur Ey­steins­son skóg­rækt­ar­stjóri og Bjarni Diðrik Sig­urðsson, pró­fess­or í skóg­fræði við Land­búnaðar­há­skóla Íslands. Aðalsteinn sagði meðal annars við mbl.is á síðasta ári að mjög litlar upplýsingar væru um áhrifin. Bjarni sagði aftur á móti að aðgerðir sem þessar gætu skilað árangri en það væri flókið ferli að fylgjast með breytinum. Þá tók hann fram að end­ur­heimt vot­lend­is hafi verið samþykkt sem gild mót­vægisaðgerð inn­an Kýótó­samn­ings­ins.  

Segir skattalega hvata þurfa við rafbílavæðingu

Það er þó ekki bara framræsing sem rætt er um í samstarfsyfirlýsingunni. Orkuskipti þegar kemur að bíla- og skipaflotanum vega þar þungt. Bjarni segir að mikil þróun hafi til að mynda verið undanfarið varðandi sparneytnari vélar í skipum. Þar sé í raun bylting að eiga sér stað. Þá sé líka hröð þróun á bílamarkaðinum þar sem rafbílar verði sífellt samkeppnishæfari.

Noregur stendur Íslandi talsvert framar þegar kemur að nýskráningu rafmagnsbíla og spurður út í hvort ríkisstjórnin horfi til árangurs þar segir Bjarni að hann hafi kynnt sér áherslur þeirra nokkuð vel. „Þar hafa verið meiri skattalegir hvatar en hér á landi og greinilega hefur það haft áhrif,“ segir hann og bætir við að vinna sé í gangi í fjármálaráðuneytinu til að endurskoða þessi mál. „Við erum að sjá breytingarnar koma inn á markaðinn, en þó ekki af meiri krafti en það að það þarf ívilnanir til að fólk stígi þetta skref,“ segir Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert