Fá að nota LED-ljósaskiltið sem flettiskilti

LED-auglýsingaskiltið á mótum Miklubrautar og Grensásvegar er nú notað með …
LED-auglýsingaskiltið á mótum Miklubrautar og Grensásvegar er nú notað með sama hætti og flettiskilti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

LED-ljósaskiltið við Grensásveg fær væntanlega að vera áfram notað sem flettiskilti út sumarið.  Greint var frá því í Morgunblaðinu í mars sl. að álagningu dagsekta vegna starfrækslu ólöglegra LED-ljósaskilta í Reykjavík, líkt og stendur við Grensás, hafi verið frestað þar til sérstakur starfshópur um ljósaskilti skili af sér tillögum um málið til umhverfis- og skipulagsráðs.

Niðurstaða starfshópsins átti að liggja fyrir í marsmánuði og var álagningu dagsekta frestað gegn því að slökkt yrði á skiltunum. Það hefur ekki verið gert, en þau hafa þess í stað verið nýtt með sama hætti og flettiskiltin sem áður voru þar uppi.

Frétt mbl.is: Álagningu dagsekta frestað

Reykjavíkurborg hefur líka fengið kvartanir frá íbúum vegna skiltisins við Grensás að sögn Arnar Sigurðssonar, skrifstofustjóra umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, sem bendir á LED-skiltið sé ekki langt frá blokkunum í Fellsmúlanum. „Svo getur þetta vel truflað fólk sem er að vinna við Grensásinn líka. Ég reikna með að þetta sé mjög óþægilegt ef birtan nær inn til þín,“ segir hann.

„Skín öskrandi skært“

RÚV greindi frá því í síðustu viku að íbúar í Kópavogi hafi lýst óánægju sinni með ljósaskiltið sem nýlega var sett upp milli Fífunnar og Hafnarfjarðarvegarins og að fólk sé hvatt til að  senda mótmælapóst á valin netföng starfsmanna bæjarins.

Fréttablaðið fjallar um málið í morgun og vísar í bréf sem íbúar Kópavogsbæjar hafa sent heilbrigðisyfirvöldum vegna málsins. Vísar blaðið í bréf Hrafnhildar Smith, íbúa í Fífuhvammi, til heilbrigðiseftirlitsins að nýja „háskerpuljósaskiltið skíni  „öskrandi skært 24 klukkustundir á dag“, þrátt fyrir að hún hafi heyrt að slökkva ætti á skiltinu um hálfellefu á kvöldin.

Frétt mbl.is: Hóta dagsektum vegna ljósaskilta

Mbl.is reyndi fyrir helgi að ná í skipulagsfulltrúa Kópavogsbæjar vegna málsins án árangurs, en að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag þá er byggingafulltrúi Kópavogsbæjar að skoða málið, sem einnig hefur verið tekið fyrir á fundi Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.

Skoða sambærilega notkun í Evrópu

Vinnu starfshóps umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur varðandi LED-ljósaskiltinn í höfuðborginni, er hins vegar enn ekki lokið.

Kveðst Örn gera ráð fyrir að ekkert verði hreyft við þeim ljósaskiptum sem nú eru nýtt með sama hætti og flettiskilti á þeim stöðum í borginni þar sem leyfi var fyrir flettiskilti. „Ég geri ekki ráð fyrir því nema það verði þeim mun meiri kvartanir og erfiðleikar. Ef svo er þá þurfum við náttúrulega að taka á því,“ segir hann.

Spurður út í vinnu hópsins, segir hann hópinn hafa skilaði af sér ýmsum hugleiðingum um málið. „Niðurstaðan var sú að þessi hópur treysti sér ekki til að setja reglur um þetta á svona stuttum tíma. Hann fékk því lengri tíma til verksins og heimild til að fá utanaðkomandi aðstoð til þess að móta skynsamlegar reglur.“

Hópurinn hefur frest fram á haustið og mun m.a. njóta aðstoðar sérfræðinga á verkfræðistofu við að kanna hvernig tekið hefur verið á notkun sambærilegra ljósaskilta víða um Evrópu. „Við reynum síðan að taka mið af því,“ segir Örn.

Má ekki trufla heimilislíf

Þrjú atriði skipta mestu máli varðandi staðsetningu og notkun ljósaskiltanna að hans sögn. „Það er að þetta trufli ekki heimilislíf íbúa, að þetta trufli ekki umferð og svo að þetta sé ekki yfirgnæfandi í borgarmyndinni og taki hana yfir.“

Þau fyrirtæki sem skiltin eiga eru hins vegar dugleg að leggja fram tölulegar upplýsingar sem eigi að sanna að skiltin trufli ekki umferð eða valdi hættu. „Síðan eru þeir líka duglegir líka að benda á hvað þetta hjálpi mikið íþrótta- og ungmennafélögum til að afla tekna með og það eru einhverjir sem eru viðkvæmir fyrir því.“

Ýmislegt þurfi því að skoða í þessum málum og erfitt sé að segja til um á þessari stundu um það hvernig menn stýra eigi þessum þáttum.

Truflandi hve ljósmagnið er hátt

Sjálfur keyrir Örn daglega frá Hafnarfirði til Reykjavíkur og kveðst fara ýmist eftir Reykjanesbrautinni eða Hafnarfjarðarveginum. „Og ég verð að segja að þessi risastóru skilti með LED-ljósnum sem eru í Kópavogi trufla mig alveg svakalega á meðan að ég er að keyra.“

Spurður hvort það sé ásættanleg tímabundin lausn ljósaskiltin séu notuð sem flettiskilti, segir Örn persónulega ekki telja að svo sé. „Það sem er aðallega truflandi í þessu er hve ljósmagnið er hátt, þetta verður svo frekt í umhverfinu sérstaklega þegar það fer að skyggja. Þetta truflar mig, en ég er kannski bara svona gamaldags. Ég ákvað heldur ekki að búa til reglur upp á eigin spýtur, heldur erum við að fá fleiri sjónarmið inn í þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert