Passar ekki við það sem er á Skógum

Héraðsnefndir á að svæðinu sjá ekki að tónlistarhátíð samræmist því …
Héraðsnefndir á að svæðinu sjá ekki að tónlistarhátíð samræmist því því sem þar er fyrir. Mynd/Ómar Óskarsson

„Okkur fannst þetta ekki passa við það sem er fyrir á Skógum, eins og þeir lögðu upp með þetta. Þeir segjast ætla að kynna fyrir okkur breytta útfærslu og þá skoðum við það,“ segir Egill Sigurðsson, oddviti héraðsnefndar Rangárvallasýslu um fyrirhugaða tónlistarhátíð bresku hljómsveitarinnar The xx við Skógafoss helgina 14. til 16. júlí. En skipuleggjendur óskuðu eftir því að tónleikagestir gætu nýtt tjaldstæðið við Skógafoss og aðra aðstöðu á svæðinu.

„Við héldum sameiginlegan fund, héraðsnefndir Vestur-Skaftfellinga og Rangæinga, og fórum yfir þessar hugmyndir. Við höfnuðum þessu eins og þetta var fyrir okkur lagt,“ bætir Egill við.

Hátíðin ber heitið Night + Day og einn skipuleggjanda hennar er Friðrik Ólafsson, sem jafnframt hefur komið að skipulagningu Secret Solstice tónlistarhátíðarinnar í Laugardal.

Í samtali við mbl í gær sagði Friðrik að eðlilegt væri á þessum tímapunkti að einhver leyfi vantaði. Hann sagðist jafnframt hafa verið í góðu sambandi við hagsmunaðila á svæðinu, meðal annars sveitarstjórn og bændur. En til stendur að halda hátíðina í landi Drangshlíðardals, sem er jörð í einkaeigu, og samningar við landeigendur munu liggja fyrir. Ef tónleikagestir fá ekki að nýta tjaldstæðið við Skóga verður fundin önnur lausn, að sögn Friðriks. 

„Það verður að hafa í huga að þetta er Skógafoss og það eru að koma fimm til sjöþúsund manns þarna á hverjum degi að skoða fossinn. Þetta er gríðarleg umferð fram og til baka. Það er meira en að segja það að halda þarna útihátíð og bæta við tjaldstæði fyrir sex til áttaþúsund manns og halda öllu í röð og reglu. Okkur þóttu þessar hugmyndir ekki líta þannig út að við gætum samþykkt þær,“ segir Egill.

map.is
map.is map.is

 En hvaða leyfi þarf til að halda slíka tónlistarhátíð? „Þegar menn ætla að halda útihátíðir á landi sem einhver hefur umráðarétt yfir, hvort sem það eru héraðsnefndir eða einstaklingar, þá er frumskilyrði að fá leyfi landeiganda.“ En slíkt leyfi mun liggja fyrir. „Svo þarf leyfi hjá lögreglu og jafnvel umhverfisstofnun því þetta er náttúruverndarsvæði,“ bætir Egill við.

„Ég sem formaður héraðsnefndar hafði ekkert heyrt um þetta fyrr en bara fyrir örfáum dögum. Það er vissulega einkaland hinu megin við Skóga og það getur verið að þeir hafi verið í góðu sambandi við þá. En ég veit að það er ekki búið að gefa út skemmtanaleyfi eða lögformlegt leyfi ennþá fyrir þessari hátíð. Slík leyfi þarf alltaf.“

Friðrik vill meina að tónlistarhátíðin komi ekki til með að hafa áhrif á ferðamenn eða hindra aðgang þeirra að Skógafossi. Héraðsnefndirnar óttast þó að það gæti orðið raunin. „Það er ekki vilji til þess hjá héraðsnefnd Rangæinga eða Vestur-Skaftfellinga að takmarka aðgengi ferðamanna að fossinum vegna útihátíðar. Komi hins vegar breytt útfærsla þá skoðum við það. Við erum sanngjarnir menn hérna í Rangárvallasýslu þó ótrúlegt megi virðast,“ segir Egill.

Aug­lýst hef­ur verið að miðar á hátíðina fari í sölu á  föstu­dag­, en á meðal tónlistarmanna sem koma fram eru; Warpaint, Gangly, Högni og Mr. Silla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert