Hló á meðan foreldrarnir grétu af gleði

Áslaug Ósk Hinriksdóttir er fimm barna móðir. Elsta dóttir hennar, …
Áslaug Ósk Hinriksdóttir er fimm barna móðir. Elsta dóttir hennar, Þuríður Arna, greindist með heilaæxli þegar hún var rúmlega tveggja ára. mbl.is/Golli

„Afmæliskveðjurnar voru alveg ótrúlega fallegar. Við erum í skýjunum,“ segir Áslaug Ósk Hinriksdóttir, móðir Þuríðar Örnu, sem varð 15 ára í gær. Áslaug brá á það ráð að biðla til vina, vandamanna og ókunnugra að senda Þuríði Örnu afmæliskort. Það stóð ekki á afmæliskortunum sem rigndi inn um lúguna og voru þau alls um 130.  

Þuríður Arna er með heilaæxli og þroskahömlun. Henni var ekki hugað líf þegar hún var rúmlega 4 ára gömul. Hún hefur farið í tvær heilaaðgerðir um ævina og er gangandi kraftaverk.  


Öll fjölskyldan eyddi afmælishelginni í Miðhúsaskógi og að sjálfsögðu voru öll afmæliskortin tekin með. „Við vöktum hana með gjöfum og afmælissöng. Systkini hennar hjálpuðu henni að lesa á öll kortin,“ segir móðir hennar. Þuríður Arna á fjögur systkini sem eru öll yngri en hún og sú yngsta er fjögurra ára. Faðir hennar er Óskar Örn Guðbrandsson.

Kveðja frá forsetanum vakti lukku

Þuríður Arna fékk líka afmæliskveðju frá forsetanum, áritaða mynd af forsetanum með fallegri kveðju. „Hann er í miklu uppáhaldi hjá henni. Það var virkilega gaman að fá kort frá honum,“ segir Áslaug.

Afmælisbarnið fékk líka myndband frá leikurum sýningarinnar Mamma Mia en hún er mikill aðdáandi sýningarinnar. „Hún hló og flissaði. Á meðan við foreldrarnir grétum af gleði,“ segir Áslaug og hlær.

Afmælisbarnið Þuríður Ósk.
Afmælisbarnið Þuríður Ósk.

Tilhlökkunin fyrir afmælisdaginn var orðin mikil hjá Þuríði Örnu sem er með þroska á við sex ára. Hún hafði tekið samviskusamlega á móti öllum kortunum sem bárust í pósti. „Henni finnst rosalega gaman að taka á móti póstinum þó að hann sé ekki til hennar. Hún flokkaði kortin samviskusamlega og dáðist að þeim,“ segir Áslaug.

Þakklæti á þakklæti ofan

Sem fyrr segir er fjölskyldan í skýjunum með afmælishelgina og þakklæti er efst í huga þeirra allra. Áslaug segir mikilvægt að geta líka sagt frá því góða í veikindum hennar og fólk þurfi alltaf að geta leitað í slíkar sögur. 

„Kannski þegar hún verður 20 ára,“ segir Áslaug með sínum dillandi hlátri aðspurð hvort hún muni aftur óska eftir því að fólk sendi henni afmæliskort. 

Afmæliskortin voru fjölmörg.
Afmæliskortin voru fjölmörg.
Systkinin glöð á góðri stund í sumarbústað um helgina.
Systkinin glöð á góðri stund í sumarbústað um helgina.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert