Verjandi Thomasar fer fram á farsímagögn

Thomas Møller Olsen mætti ekki fyrir dóm í dag.
Thomas Møller Olsen mætti ekki fyrir dóm í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verjandi Thomasar Møller Ol­sen, sem ákærður er fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur í janúar, hefur krafist þess að afhent verði farsímagögn fyrir tímabilið 14. janúar klukkan 06:00 til 15. janúar klukkan 06:00. Um er að ræða gögn úr farsímamöstrum sem staðsett eru við Suðurstrandarveg, m.a. við Strandarkirkju.

Fyrirtaka fór fram í málinu í dag. Kröfunni var mótmælt af hálfu ákæruvaldsins, sem sagði hana bersýnilega þarfalausa. Dómari í málinu sagði að þar sem gögnin væru varðveitt hjá fjarskiptafyrirtækjum myndi hann boða þau fyrirtæki fyrir dóm þar sem krafan verði tekin sérstaklega fyrir. Frestaði hann þinghaldi til fimmtudagsins 15. júní nk. klukkan 13:15, til að bregðast við kröfunni. Hinn ákærði var ekki viðstadd­ur fyr­ir­tök­una.

Ekki var tekin ákvörðun um aðalmeðferð í málinu. Eins og fjallað hefur verið um mun þýski rétt­ar­meina­fræðing­ur­inn Urs Oli­ver Wies­brock mæta fyr­ir dóm í málinu. Hlut­verk hans er að svara fimm spurn­ing­um sem lagðar hafa verið fyr­ir hann og gert er ráð fyr­ir að hann verði bú­inn að svara spurn­ing­un­um 27. júní. Verið er að þýða gögn í málinu fyrir hann.

Þá hefur Ragnar Jónsson bæklunarlæknir frest til 16. júní til að skila áliti sínu, en verjandi Olsens hefur lagt tvær spurningar fyrir hann.

Fjallað hefur verið um að um þrjá­tíu vitni verði boðuð fyr­ir dóm­inn í mál­inu. Minnst tíu úr áhöfninni á Polar Nanoq, þar sem Olsen var skipverji, hafa verið beðnir um að bera vitni.

Olsen hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í lok janúar. Auk þess að vera ákærður fyrir morðið á Birnu er hann einnig ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert