Sexmenningarnir yfirheyrðir í morgun

Grímur vill ekki segja hvort játningar liggi fyrir í málinu.
Grímur vill ekki segja hvort játningar liggi fyrir í málinu. mbl.is/Ófeigur

Yfirheyrslur fóru fram í morgun yfir sexmenningunum sem grunaðir eru um að hafa banað Arnari Jónssyni Aspar, við heimili hans í Mosfellsdal á miðvikudagskvöld. Þetta segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is. Ekki hefur verið ákveðið hvenær yfirheyrslum verður haldið áfram.

Aðspurður hvort einhverjar játningar liggi fyrir vill Grímur ekkert tjá sig um það. „Á þessu stigi höfum við ákveðið að tala ekkert um það sem kemur fram í yfirheyrslum.“

Fréttablaðið greindi frá því í dag að lögregla hefði ástæðu til að gruna að sexmenningarnir hefðu komið sér saman um sögu til að segja lögreglu ef til þess kæmi. Að atvikalýsing frá kvöldinu gefi tilefni til að ætla að samræmdur framburður hefði verið ákveðinn áður en þeir fóru að heimili Arnars.

Grímur vill ekki staðfesta þetta. „Það er bara auðvitað eitt af því sem er til rannsóknar, hvort svo hafi verið, eins og annað sem er til rannsóknar í þessu máli.“ Aðspurður hvort eitthvað bendi til að svo hafi verið segist hann ekki geta farið út í það.

Fimm karlmenn, sem taldir eru eiga aðild að dauða Arnars, hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 23. júní næstkomandi, og ein kona til 16. júní, en þáttur hennar í málinu virðist ekki vera talinn jafn mikill.

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Jóns Trausta Lútherssonar, eins þeirra sem sitja í gæsluvarðhaldi, sagði í samtali við mbl.is í gær að umbjóðandi sinn neitaði því að hafa ráðið Arnari bana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert