Undirmönnuð vopnuð lögregla hættuleg

Vopnaðir sérsveitarmenn voru að störfum í miðborginni í gær.
Vopnaðir sérsveitarmenn voru að störfum í miðborginni í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held að það geti verið mjög hættulegt sýndaröryggi í því að fjölga vopnuðum lögreglumönnum, en ekki styrkja hina almennu löggæslu í landinu. Ég held að við séum á kolrangri leið,“ segir Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, um aukinn viðbúnað lögreglu sem kom almenningi fyrst fyrir sjónir í gær þegar vopnaðir lögreglumenn voru að störfum í miðborg Reykjavíkur í gær þar sem fram fór hið svokallaða Color Run.

Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, sagði í samtali við fréttastofu Rúv í gær að þessi aukni viðbúnaður hefði verið ákveðinn í síðustu viku vegna nýlegra hryðjuverkaárása í nágrannaríkjum okkar. Jón sagði að þetta væri gert til að tryggja skjót viðbrögð og auka öryggi almennings. Hann sagði jafnframt að búast mætti við hertri öryggisgæslu á margmennum viðburðum sem fram undan eru. Hættumat fyrir Ísland hefði þó ekki hækkað. Hert öryggisgæsla verður einmitt í borginni í dag og kvöld vegna landsleiks Íslands og Króatíu sem fer fram á Laugardalsvelli í kvöld.

Steinunn Þóra telur hættulegt sýndaröryggi felast í vopnuðum lögreglumönnum.
Steinunn Þóra telur hættulegt sýndaröryggi felast í vopnuðum lögreglumönnum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Mér finnst mjög skrýtið að þessu sé dembt á, án þess að það sé komið fram breytt hættumat. Við eigum þess ekki að venjast að lögreglan sé vopnuð, sem betur fer. Auðvitað verður að ræða þessa hluti,“ segir Steinunn. Hún er því er mjög ánægð með að formaður flokks hennar, Katrín Jakobsdóttir, sem á sæti í þjóðaröryggisráði, ætli að taka þetta mál upp á næsta fundi ráðsins.

Mér finnst mjög eðlilegt að setja þetta samhengi við hina almennu löggæslu, þar sem hefur verið skorið niður fjármagn. Með því að styrkja hina almennu löggæslu er öryggi borgaranna raunverulega tryggt. Ég held að það sé fátt hættulegra en undirmönnuð vopnuð lögregla, svona almennt séð. Það er ekki þróun sem ég vil sjá.“

Að mati Steinunnar hafa heldur ekki verið færð nein haldbær rök fyrir því að þörf sé á hertri löggæslu hér á landi af hálfu vopnaðra lögreglumanna. „Það hefur einmitt verið gefið út að það sé ekki breytt hættumat. Þetta passar ekki saman.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert