Starfshópur fundaði í fyrsta sinn

Neskaupstaður.
Neskaupstaður. mbl.is/Sigurður Bogi

Fyrsti fundur starfshóps vegna sameiginlegrar húsnæðisáætlunar fyrir Austurland var haldinn í gær. Í hópnum eru sjö fulltrúar, bæði bæjar- og sveitarstjórar úr landshlutanum.

Að sögn Páls Björgvins Guðmundssonar, bæjarstjóra Fjarðabyggðar, voru menn að stilla saman strengina á þessum fyrsta fundi. Engin ákvörðun var tekin um næstu skref.

Hann segir að sveitarfélög séu mörg hver að vinna sínar húsnæðisáætlanir um þessar mundir, þar á meðal Fjarðabyggð. Beðið verður eftir því að þeirri vinnu ljúki áður en sameiginleg stefna verður ákveðin.

„Við erum með sex bæjarhluta í Fjarðabyggð og það eru mismunandi aðstæður á öllum þessum stöðum varðandi húsnæðismál. Við viljum fyrst klára þessa grunnvinnu áður en gerð verður húsnæðisáætlun fyrir fjórðunginn,“ segir Páll Björgvin.

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar. mbl.is/Albert Kemp

Kostnaðarverð hærra en markaðsverð

Samband sveitarfélaga á Austurlandi stendur á bak við starfshópinn. „Víða á svæðinu er kostnaðarverð hærra heldur en markaðsverð. Það er spurning með hvaða hætti er hægt að vinna að því að engu að síður sé byggt húsnæði,“ greinir hann frá um tilgang hópsins.

Hann segir að hugsanlega muni ný löggjöf ríkisins um stofnstyrki til byggingar á félagslegu húsnæði hjálpa til. Það hafi aftur á móti verið til trafala að tekjur séu frekar háar, auk þess sem sveitarfélög séu einnig með félagslegt húsnæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert