Birta ekki nöfn umsagnaraðila

Dómsmálaráðuneytið hefur sent frá sér tilkynningu vegna umræðu um uppreist …
Dómsmálaráðuneytið hefur sent frá sér tilkynningu vegna umræðu um uppreist æru. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Þeim einstaklingum, sem sótt hafa um uppreist æru og uppfylla lagaskilyrði 85. greinar almennra hegningarlaga nr. 19/1940, hefur verið veitt uppreist æru. Þá mun dómsmálaráðuneytið, með hliðsjón af eðli upplýsingalaga og lögum um persónuvernd, ekki afhenda gögn er varða einstaka umsóknir um uppreist æru, þar á meðal nöfn þeirra einstaklinga sem hafa vottað um góða hegðun einstakra umsækjenda.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem dómsmálaráðuneytið sendi frá sér í ljósi umfjöllunar og fyrrispurna fjölmiðla um uppreist æru.

Tals­vert hef­ur verið rætt og ritað um upp­reist æru eft­ir að lögmaður­inn Robert Dow­ney fékk upp­reista æru en Hæstirétt­ur staðfesti dóm héraðsdóms þess efn­is í síðustu viku. Dow­ney, sem er rúm­lega 70 ára gam­all, var dæmd­ur í 3 ára fang­elsi fyr­ir kyn­ferðis­brot gegn fjór­um stúlk­um. Brot­in voru fram­in á ár­un­um 2005 og 2006.

Birta ekki nöfn umsagnaraðila

Samkvæmt fyrrnefndri grein hegningarlaga er heimilt að veita einstaklingi uppreist æru sem sætt hefur refsingu, 12 mánaða fangelsi eða lengur, ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt: Að refsing sé að fullu úttekin, að tilgreindur tími hafi liðið frá því að refsing var að fullu úttekin og að sýnt sé fram á góða hegðun frá því að refsing var að fullu úttekin. að því er segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Upplýsinga er því næst aflað úr sakaskrá um sakaferil til staðfestingar á því að umsækjandi hafi ekki framið brot á tímabilinu ásamt upplýsingum úr málaskrá lögreglu um að umsækjandi eigi engin ólokin mál í refsivörslukerfinu. Til frekari staðfestingar á góðri hegðun er fengin umsögn að minnsta kosti tveggja umsagnaraðila.

Er það mat ráðuneytisins að því sé ekki heimilt að birta nöfn þeirra einstaklinga sem hafa vottað um góða hegðun einstakra umsækjenda um uppreist æru.

Kallar á aðkomu löggjafans

„Það er áratuga undantekningarlaus framkvæmd, a.m.k. sl. 35 ár, að ef umsækjandi um uppreist æru uppfyllir framangreind lögformleg skilyrði til að hljóta uppreist æru, þá er hún veitt. Ákvæði 2. mgr. 85. gr. alm. hgl. er heimildarákvæði og hygðist ráðherra eða forseti Íslands synja umsókn um uppreist æru, þrátt fyrir að umsækjandi uppfylli öll lagaleg skilyrði, yrðu að vera fyrir því málefnalegar ástæður,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Í því ljósi hafi Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra lýst því yfir að ef breyta eigi áratuga langri framkvæmd við veitingu uppreist æru þurfi mögulega aðkomu löggjafavaldsins. Ráðherra hafi þegar farið fram á skoðun innan dómsmálaráðuneytis hvað þetta varðar og hvað varðar mögulega þörf á breytingu á löggjöf.

„Það skal sérstaklega tekið fram að ekki er gerður áskilnaður í lögum að ekki sé um að ræða tiltekna tegund brots. Tegund brots hefur því engin áhrif um mat á því hvort veita eigi uppreist æru,“ segir ennfremur í tilkynningunni, en hana má í held sinni lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert