„Þetta virkar mjög ómannúðlegt“

Regina, barnsmóðir Eugene, ásamt tveimur sonum þeirra.
Regina, barnsmóðir Eugene, ásamt tveimur sonum þeirra. ljósmynd/No borders Iceland

„Ég tel að Útlendingastofnun hafi ekki kynnt sér málið nægilega vel og ekki haft mannúðarsjónarmið að leiðarljósi,“ segir Gísli Kr. Björnsson, lögmaður Eugene og Reginu Osaramaese, en Eugene var vísað úr landi í gær frá barnsmóður sinni og þremur ungum börnum.

Fjölskyldan hefur búið hér á landi í þrjú ár og tvö barnanna fæddust á Íslandi. Eugene og Regina koma bæði frá Nígeríu, en flúðu landið vegna ofsókna. Eugene var handtekinn á þriðjudag og sendur úr landi eftir hádegi í gær án þess að fá að kveðja fjölskyldu sína.

Bjóst við að fjölskyldan fengi öll að vera áfram á Íslandi

Fjölskyldan hefur verið í brottflutningsferli undanfarna mánuði, en búið var að fresta för Reginu og barnanna á grundvelli þess að nýlega féll úrskurður í máli hjón­anna Abdelwahab Saad og Fadilu. Hjón­in fengu að vita það fyrr í vik­unni að þau fá að dvelja áfram á Íslandi eft­ir að kær­u­nefnd Útlend­inga­mála lagði það fyr­ir Útlend­inga­stofn­un að veita fjöl­skyld­unni dval­ar­leyfi í ljósi aðstæðna. Grund­vallaðist ákvörðunin að mestu leyti á því hversu lengi fjöl­skyld­an hef­ur verið hér á landi, eða rúm þrjú ár.

Málið er sambærilegt máli Eugene og Reginu og bjóst Gísli því við því að þau fengju öll að vera áfram hér á landi. „Ég fékk frest á grundvelli þess að þau eru með nýfætt barn og Regina þarf að vera undir stöðugu lækniseftirliti. Það virðist hins vegar einhver misskilningur átt sér stað þar sem ég taldi að þetta ætti við um þau öll en svo var honum vísað úr landi,“ segir Gísli.

Börnin eigi rétt á báðum foreldrum

Ástæðuna sem lögreglan gaf fyrir því að taka málin þeirra fyrir hvort í sínu lagi segir Gísli hafa verið að þau búi ekki saman. „En engu að síður búa börnin þeirra hér á Íslandi og eiga rétt á báðum foreldrum.“

Spurður hvort hann hafi fengið svör um það hvers vegna Eugene var ekki leyft að kveðja börnin sín segist Gísli hafa fengið lítið um svör. „Þetta er verklagt lögreglunnar og þetta virkar mjög ómannúðlegt en ég kann engar skýringar á þessu.“

Búist við hungursneyð í Nígeríu

Gísli segir megináherslu núna vera lagða á það að Regina og börnin fái að vera áfram hér á landi. „Vonandi myndi það þá leiða til þess að Eugene fengi að koma aftur,“ segir hann. Þá bætir hann við að honum þyki ótrúlegt að Útlendingastofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum frá október í fyrra að Eugene geti búið með fjölskyldu sinni í Nígeríu.

„Útlendingastofnun heldur því fram að ástandið í Nígeríu sé stabílt en Alþjóðaheilbrigðismálastofnun er að búast við hungursneyð þar á næsta ári. Það fer ekki saman hljóð og mynd,“ segir Gísli.

Hefur mikil áhrif á börnin

Hann mun nú leggja fram nýjar umsóknir fyrir hönd fjölskyldunnar og hyggst leggja fram sérstaka umsókn fyrir hvert og eitt þeirra. Þá mun hann leggja til að börnin fái skipaðan talsmann. „Þau hafa verið á leikskóla í Reykjanesbæ og aðlagast mjög vel. Það er ljóst að þetta ferli er að hafa mikil áhrif á þau en í nýjustu skýrslum frá leikskólanum er mælt með einhvers konar meðferð fyrir þau,“ segir hann.

Loks hvetur Gísli íslenska stjórnmálamenn til að minnast þess hvaða aðstöðu fólk í Evrópu var í fyrir um 70 árum þegar það hafi þurft að leita hælis, meðal annars í Afríkuríkjum, vegna aðstæðna eftir stríð. „Við tókum til dæmis á móti um 700 Þjóðverjum þá svo við ættum nú að minnsta kosti að geta bjargað börnum núna,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert