Festu bílinn en komu fyrstar í mark

Þær Lilja, Ólöf, Nanna, Karen, Sigrún, Alma, Jórunn, Margrét, Ágústa …
Þær Lilja, Ólöf, Nanna, Karen, Sigrún, Alma, Jórunn, Margrét, Ágústa og Krissa, sem skipa lið Arctica Finance, komu fyrstar kvennaliða í mark. Með þeim á myndinni er gíraffinn sem gert hefur garðinn frægan. Ljósmynd/Heimasíða WOW Cyclothon

„Við stefndum alltaf að því að vera í fyrsta,“ segir Lilja Birgisdóttir, liðsstjóri Team Arctica Finance sem kom fyrst kvennaliða í mark í B-flokki WOW Cyclothon í dag. Liðið kláraði keppni á tímanum 43:44:49 og eru liðskonur afar ánægðar með árangurinn þótt ýmsar uppákomur hafi orðið á leiðinni.

„Við héldum alveg mjög góðu forskoti og vorum mjög heppnar að kynnast frábærum liðum sem við gátum unnið með alveg tvo þriðju hluta ferðarinnar. Þannig að það hjálpaði mjög mikið og gerði upplifunina bara skemmtilegri,“ segir Lilja, en þær unnu með liðum Advania og Lávarðasveit Víkings stóran hluta ferðarinnar.

Erfiðasta kafla keppninnar segir Lilja án efa hafa verið síðustu kílómetrana á Suðurlandinu þar sem mótvindur var mikill. „Við lentum í þessari lægð sem er yfir landinu, sem varð nú til þess að einhverjir keppendur gátu ekki klárað keppnina, þannig að við hjóluðum bara með tólf metra á sekúndu í fangið í 300-400 kílómetra,“ segir Lilja.

Seinni nótt keppninnar, þegar hluti liðsins hugðist hvíla sig þar sem þær voru staddar rétt sunnan við Jökulsárlón, lentu þær í örlitlu klandri sem tafði þær örlítið á leiðinni.  

„Við lentum í smá óhappi sem er hægt að hlæja að núna,“ segir Lilja létt í bragði. „Við vorum með tvo bíla, einn húsbíl og einn annan, vorum svolítið þreyttar og við ákveðum bara að keyra bílinn út af veginum til að leggja,“ útskýrir Lilja.

Ekki vildi betur til en svo að afturendi bílsins seig niður í blautan jarðveginn og sat fastur og þurftu þær því að hringja eftir hjálp til að láta draga sig upp. „En við komum fyrstar í mark, þetta var bara smá ævintýri,“ segir Lilja að lokum, ánægð með árangurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert