Víða laus herbergi á hótelum

Mynd úr safni af hótelherbergi.
Mynd úr safni af hótelherbergi. mbl.is/Árni Sæberg

Færri erlendir ferðamenn virðast vera á eigin vegum á landsbyggðinni það sem af er ári og eitthvað vantar upp á að hóparnir sem fara í skipulegar hringferðir séu fullir. Kemur það fram í minni viðskiptum á gististöðum, veitingahúsum og hjá afþreyingarfyrirtækjum. Víðast hvar er hægt að ganga að lausum herbergjum vísum sem ekki hefur verið hægt undanfarin sumur.

Samdráttur er hjá gististöðum á Austurlandi, að sögn Þráins Lárussonar sem rekur Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum og Hótel Hallormsstað. Hann segir að eftir góðan maímánuð hafi hann átt von á aukningu í júní.

„Það er aukning á Hallormsstað en samdráttur á Egilsstöðum þar sem við stílum meira upp á lausatraffíkina. Hún virðist skila sér verr. Við sjáum einnig að öðruvísi neyslumynstur er á veitingastöðunum,“ segir Þráinn og vísar til þess að ferðamennirnir geri ekki eins vel við sig í mat og drykk og áður. „Það koma gloppur inn í bókanir sem ekki hefur verið undanfarin ár. Við höfum áhyggjur af því og búumst við sérstöku sumri,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, hótelstjóri á Icelandair hóteli á Akureyri. Hún segir að lausatraffíkin skili sér ekki eins vel og áður, ferðamynstrið sé annað. Sama saga sé með veitingastaðinn. Erlendu gestirnir leyfi sér minna en áður.

„Þetta var í lagi fram undir lok maí en júní er aðeins undir væntingum. Ferðaskrifstofurnar hafa ekki náð að fylla hópana,“ segir Daníel Jakobsson, hótelstjóri Hótel Ísafjarðar.

Hótelstjórarnir telja að styrking gengis íslensku krónunnar valdi því að þjónustan sé orðin dýr. Það sé meginástæðan fyrir breyttri ferðahegðun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert