Heimilislaus með tvær dætur í upphafi sumars

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Við erum bara búnar að vera að lenda í að þurfa að flytja endalaust,“ segir Guðbjörg Sigríður Snorradóttir, sem hefur neyðst til þess að flytja ítrekað síðastliðin ár, úr einni leiguíbúð í aðra.

Guðbjörg er einstæð móðir, á fimm dætur, þrjár þeirra uppkomnar en tvær enn á grunnskólaaldri.

Guðbjörg Sigríður Snorradóttir.
Guðbjörg Sigríður Snorradóttir.

Hún flutti til Reykjavíkur árið 2008. Síðan þá hefur hún verið í mesta lagi tvö ár í sömu íbúðinni og flutt alls sex sinnum. Stúlkurnar hafa þurft að skipta um skóla vegna flutninganna og því fylgir mikið rót, að sögn Guðbjargar.

Þrjú ár á biðlista

Hún hefur verið þrjú ár á biðlista eftir leiguíbúð hjá Reykjavíkurborg. „Ég held að það standi „hahaha“ fyrir aftan nafnið mitt á biðlistanum. Ég er að bíða eftir 4 herbergja íbúð og fékk þau svör í vikunni að það væri eiginlega engin von um að ég fengi íbúð.“

Í byrjun sumars stóð Guðbjörg í þeim sporum að verða heimilislaus með dætur sínar. „Við erum búnar að vera húsnæðislausar allan júní. Ég er bara svo ótrúlega heppin að eiga góðan fyrrverandi eiginmann, þannig að við fengum að vera í íbúðinni hans á meðan hann er á sjónum,“ segir hún.

Þakklát fyrir íbúðina

Leiguíbúð í Breiðholti, sem þær mæðgur flytja inn í um mánaðamótin, er ekki í skólahverfi stúlknanna. Hún er þó þakklát fyrir að hafa fengið íbúð á markaðnum eins og staðan er í dag.

„Maður er bara rosa ánægður þegar maður kemst til að skoða íbúðir sem eru til leigu. Ég var svo heppin að leigusalinn valdi mig úr hópi fjölda fólks. Þetta er alveg hrikalegt ástand. Ég er ein með stelpurnar og leigan er 235 þúsund á mánuði. Þá er ekki mikill afgangur eftir,“ segir Guðbjörg.

„Mér skilst samt að það sé bara vel sloppið. Ég fór og skoðaði íbúð um daginn sem var auglýst undir fyrirsögninni „Sanngjörn leiga“ og það var þriggja herbergja íbúð. Leigan þar var 250 þúsund á mánuði. Ég veit ekki hversu sanngjarnt það er,“ segir Guðbjörg.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert