Ekki meira byggt í áratugi

Ekki óvenjuleg sjón á Sauðárkróki á síðustu vikum.
Ekki óvenjuleg sjón á Sauðárkróki á síðustu vikum. Mynd/Hafsteinn Sigurðarson

Með hækkandi fasteignaverði og leiguverði er aftur byrjað að byggja íbúðarhús á Sauðárkróki, en slíkt hefur legið niðri síðan frá því fyrir hrun. Í fyrra var byrjað að úthluta lóðum syðst í Túnahverfinu og eru þær nú allar farnar, eða um 20 talsins. Í fyrra hófu tveir eigendur að byggja á lóðunum en í ár fór hrinan af stað og er nú byrjað að byggja á flestum lóðunum.

„Ekki með neitt atvinnuleysi“

Ásta Björg Pálmadóttir, sveitastjóri Skagafjarðar, segir í samtali við mbl.is að frá hruni hafi verið mikil lægð í byggingaframkvæmdum í sveitarfélaginu, en að nú sé allt komið á skrið. Hún segir mikinn skort vera í sveitarfélaginu þegar komi að íbúðahúsnæði, en að markaðsverð eigna hafi hingað til haldið aftur af væntanlegum íbúum. „Við erum ekki með neitt atvinnuleysi, en fólki sem vill vinna hefur gengið illa að finna húsnæði,“ segir Ásta.

Mynd frá í gærkvöldi sem sýnir nýjustu byggðina á Sauðárkróki …
Mynd frá í gærkvöldi sem sýnir nýjustu byggðina á Sauðárkróki í Túnahverfinu á hægri hönd. Um 20 lóðum hefur að undanförnu verið úthlutað í bænum. Mynd/Kári H. Árnason

Nefnir hún að Kaupfélag Skagfirðinga sé öflugt og hafi nýlega stækkað mjólkursamlagið. Þá hafi Fisk seafood stækkað hjá sér landvinnsluna og í kjölfarið á miklum framkvæmdum hér á landi í byggingageiranum sé nóg að gera í steinullarverksmiðjunni. Þá hafi rækjuvinnslan Dögun fengið nýjan bát í haust og að ferðaþjónustan skili líka fleiri störfum.

Meiri uppbygging en í áratugi

Ásta segir að á þeim lóðum sem hafi verið úthlutað sé verið að byggja fimm parhús og 14 einbýlishús. Fyrir hrun var mesta uppbyggingin á Sauðárkróki á vegum eldri borgara, en árið 2004 var byggð blokk á þeirra vegum og fram til ársins 2007 voru önnur 15 hús reist í Túnahverfinu. Síðan þá hefur verið lítið að gera í þessum geira, en það er allt að breytast núna að sögn Ástu.

Spurð um áhrif ferðaþjónustu á spurn eftir íbúðarhúsnæði á Sauðárkróki segir Ásta að áhrifanna gæti að einhverju leyti, en það sé þó helst önnur atvinnuuppbygging sem dragi áfram eftirspurnarvagninn.

Nokkur hús hafa þegar risið í hverfinu en unnið er …
Nokkur hús hafa þegar risið í hverfinu en unnið er í grunnum á öðrum lóðum. Mynd/Hafsteinn Sigurðarson

Verksmiðja, fjós og íþróttamannvirki

Það er þó ekki bara við íbúðabyggingar sem verktakar í Skagafirði hafa nóg að hafast, heldur segir Ásta að unnið sé að uppbyggingu prótínverksmiðju og þá séu fjölmörg fjós í byggingu í sveitarfélaginu. Til viðbótar hafi sveitarfélagið nýlega opnað tilboð í endurbætur á sundlaug og gervigrasvöll í bænum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert