Stendur til að taka húsnæðið í gegn

Fjöldi strætóa við Mjódd.
Fjöldi strætóa við Mjódd. mbl.is/

Framkvæmdastjóri Strætó segir að það standi til að taka húsnæðið í Mjódd í gegn. Engin salernisaðstaða er fyrir farþega Strætó eins og staðan er núna í Mjódd en stöðin er ein stærsta skiptistöð Strætó.

Eins og greint var frá í gær þurfti Hólmgeir Einarsson að opna fiskbúð sína fyrir ferðamanni sem þurfti nauðsynlega að komast á salernið. Hann segir málið ekki einsdæmi og segir aðstöðuleysið mikið vandamál.

Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, bendir á að Reykjavíkurborg eigi húsnæðið og muni væntanlega skoða salernismálin þegar húsið verður tekið í gegn.

„Strætó rekur ekki stoppistöðvar eða biðsali heldur eru það sveitarfélögin sem eiga Strætó,“ segir Jóhannes.

Hann segir þetta eina helstu skiptistöðina en strætóar sem fara út á land leggja af stað frá Mjódd. „Þarna fara margir í gegn en það er ekki mikið af fólki sem bíður inni. Kerfið er þannig að þetta gengur nokkuð smurt þannig að þú þarft að bíða sem minnst. Eflaust er einhverjum sem er mál og þætti gott að komast á klósettið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert