Byggðu upp netveldi sem byrjaði á fikti

Snæþór Guðjónsson, í gallajakkanum, og Guðmundur Guðmundsson eiga fyrirtækið MuscleMedia …
Snæþór Guðjónsson, í gallajakkanum, og Guðmundur Guðmundsson eiga fyrirtækið MuscleMedia sem rekur vinsælar vefsíður um heilsu. Þeir bættu nýlega við síðu sem á að höfða til kvenna og hefur síðan vaxið ævintýralega á stuttum tíma. mbl.is/Golli

Vinirnir Snæþór Guðjónsson og Guðmundur Guðmundsson áttu ekki von á því að aðeins nokkrum árum eftir smá fikt á Facebook yrðu þeir komnir með stórt netfyrirtæki, með nokkra starfsmenn í vinnu og góðar, stöðugar tekjur. Þeir reka í dag fyrirtækið Musclemedia, með skrifstofur í Aðalstrætinu í miðbæ Reykjavíkur, starfsemin er öll á netinu og viðskiptavinir þeirra flestir yngri karlmenn frá Bandaríkjunum, Ástralíu og Bretlandi. Ný vefsíða úr þeirra smiðju sem miðuð er að konum sækir hins vegar mjög hratt í sig veðrið og stefnir í að verða vinsælasta síðan þeirra.

Ævintýri þeirra hófst árið 2012 þegar þeir stofnuðu Facebook-síðu og settu þangað inn efni tengt lyftingum og vöðvauppbyggingu. „Okkur fannst vanta eitthvert almennilegt samfélag fyrir stráka sem voru í ræktinni, þannig að við stofnuðum Facebook-síðu í kringum það. Á hana settum við alls konar efni sem hvatti fólk áfram í ræktinni,“ segir Snæþór í samtali við mbl.is.

„Og boltinn byrjaði bara að rúlla. Mörg hundruð þúsund manns byrjuðu að fylgja okkur, og í dag erum við komnir yfir milljón fylgjendur alls staðar að úr heiminum.“

Snæþór segir að þeir hafi þá byrjað að velta fyrir sér hvernig mætti nýta þennan mikla fjölda og skapa þeim tekjur. Úr varð þeirra fyrsta netverslun þar sem þeir seldu meðal annars ræktarfatnað. „Sumarið 2013 hættum við báðir í vinnunum okkar því þetta var byrjað að borga meira en full vinna,“ segir Snæþór og bætir við að þá vini hafi alltaf langað til að geta unnið hvenær sem þeir vildu við eitthvað sem þeim þætti skemmtilegt. Þarna hafi sá draumur orðið að veruleika.

200 þúsund fylgjendur á tveimur mánuðum

Í ársbyrjun 2014 tóku þeir næsta skref og opnuðu aðra vefsíðu, BroScience.co, sem er þeirra aðalsmerki í dag. „Þar setjum við inn alls konar greinar um hvernig eigi að byggja upp vöðva og brenna fitu. Fyrsta árið skrifuðum við allt efnið sjálfir, en núna erum við með fjóra starfsmenn sem skrifa greinarnar á síðuna og einn sem sér alveg um samfélagsmiðlana,“ segir Snæþór.

„Áramótin 2014/15 var þetta orðið það stórt að við ákváðum að taka næsta skref og hættum báðir í skólanum til að elta drauminn,“ segir Snæþór. „Og þá fyrst sprakk þetta út og við komnir á forstjóralaun,“ segir Snæþór kíminn. Þá voru þeir byrjaðir að selja fæðubótarefni í tonnavís í hverjum mánuði.

Hann segir mikla vinnu hafa verið lagða í að koma fyrirtækinu af stað til að byrja með, en í dag sé þetta farið að rúlla þægilega. „Við höfum prófað margt og þreifað fyrir okkur. Við höfum til dæmis selt okkar eigin rafbækur. En það eru alltaf fæðubótarefnin sem seljast langbest,“ segir Snæþór.

Á þessu ári bættust við tvær nýjar síður hjá MuscleMedia, annarri þeirra svipar til BroScience nema hún er hugsuð fyrir stelpur sem vilja komast í form. „Sú síða er að vaxa mjög hratt og stefnir í að hún verði stærri en BroScience á þessu ári. Við erum þegar komnir með 200 þúsund fylgjendur frá Bandaríkjunum og Bretlandi eftir aðeins tveggja mánaða vinnu,“ segir Snæþór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert