„Raunveruleg verðmæti eru oft fólgin í öðru en krónum og aurum“

Oddný Steina, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, segir meðal annars ekki hægt …
Oddný Steina, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, segir meðal annars ekki hægt að líta framhjá gæðum vara við verðsamanburð. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, segir samanburð Þorsteins Víglundssonar félags- og jafnréttismálaráðherra á matvælaverði að mörgu leiti hæpinn. „Það ætti að vera kappsmál ráðamanna að tryggja neytendum aðgengi að heilnæmri vöru ekki síður en ódýrri,“ segir Oddný.  

„Að sjálfsögðu ætti einnig að horfa til annarra kostnaðarþátta, almenns verðlags og kaupmáttar í þessum löndum,“ segir Oddný í samtali við mbl.is. Hún segir ljóst að stór hluti af innfluttri matvöru hér á landi sé án tollverndar og líklegast hærra hlutfall en í samanburðarlöndum.

Oddný segir einnig ekki hægt að líta framhjá gæðum vara við verðsamanburð. „Íslenskar landbúnaðarvörur eru framleiddar við fremur strangt regluverk, eiturefnanotkun og lyfjanotkun er almennt lítil og aðbúnaðarreglur almennt í strangara lagi,“ segir Oddný.

„Það fellur ekki að umhverfissjónarmiðum að auka hlutdeild innfluttrar matvöru,“ segir Oddný og bætir við að þessu megi ekki líta framhjá. „Svo er það umhugsunarefni ef ráðherra í ríkisstjórn Íslands finnst engu skipta að viðhalda hér landbúnaði, tryggja með því fæðuöryggi og byggð víða um landið, raunveruleg verðmæti eru oft fólgin í öðru en krónum og aurum,“ segir Oddný að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert