32 fengið uppreist æru síðan 1995

Dómsmálaráðuneytið.
Dómsmálaráðuneytið. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Frá árinu 1995 hafa 32 einstaklingar fengið uppreist æru. Þar af eru tveir einstaklingar sem höfðu hlotið 16 ára fangelsisdóm, einn sem hafði hlotið 10 ára fangelsisdóm og einn sem hlaut rúmlega 9 ára dóm. Aðrir dómar voru vægari eða á bilinu fjórir mánuðir til sex ár. Ívið fleirum sem óskuðu eftir uppreist æru á sama tímabili var synjað eða 54 einstaklingum.

Þetta kemur fram í yfirliti yfir refsilagabrot allra þeirra sem sótt hafa um uppreist æru árin 1995 til 2017 sem dómsmálaráðuneytið hefur gert opinbert.

Nöfn einstaklinga ekki birt

Í yfirlitinu kemur aðeins fram fyrir brot á hvaða lögum viðkomandi einstaklingar hlutu dóma, hversu þungir dómarnir voru og hvenær uppreist æru var veitt. Ekki eru birt nöfn þeirra einstaklinga sem hlotið hafa uppreist æru né þeirra sem hefur verið synjað.

Í flestum þeim tilfellum þar sem beiðni um uppreist æru var synjað var um að ræða skilorðsbundna dóma eða sektir. Þá hefur beiðni í 12 tilfellum verið felld niður, yfirleitt þar sem gögn bárust ekki þrátt fyrir ítrekun eða þar sem beiðni var afturkölluð.

Ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytis sat fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þann 18. júlí þar sem farið var yfir stjórnsýsluframkvæmd varðandi beiðnir um uppreist æru og greindi nefndarmönnum frá helstu atriðum er varða framkvæmdina eins og hún hefur verið um langt árabil að því er fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Í framhaldi af þeim fundi sendi dómsmálaráðuneytið stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis gögn sem nefndin hafði óskað eftir og varða málsmeðferð á beiðni Róberts Downey um uppreist æru. Nefndinni var einnig sent yfirlit yfir refsilagabrot allra þeirra sem sótt hafa um uppreist æru á fyrrnefndu tímabili.

Tekið verði tillit til eðli brota og hagsmuna

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi á föstudaginn hvernig stjórnsýsluframkvæmd ráðuneytisins varðandi umsóknir um uppreist æru er háttað. Kynnti ráðherra þá einnig þau áform sín að leggja fyrir Alþingi lagafrumvarp um verulegar breytingar á þessu sviði að því er segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

„Í opinberri umræðu að undanförnu um málsmeðferð við veitingu uppreistar æru hafa verið reifuð margvísleg sjónarmið í þá veru að núverandi framkvæmd hennar væri ekki viðunandi. Áform dómsmálaráðherra með lagabreytingu lúta að því að afnema skilgreiningar í lögum á því hvaða brot eru svívirðileg að almenningsáliti og hafa í för með sér flekkun mannorðs (4. og 5. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000) og afnema jafnframt með öllu ákvæði í lögum um uppreist æru (84. og 85. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940),“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

„Þess í stað verði einfaldlega mælt fyrir um það í viðkomandi lagabálkum hvers konar brot girði fyrir að menn séu kjörgengir eða embættisgengir til ákveðinna starfa. Megi þannig taka eðlilegt tillit til þeirra ólíku hagsmuna sem eru í húfi varðandi mismunandi störf og réttindi. Jafnframt verði alveg horfið frá þeirri framkvæmd að taka stjórnsýsluákvarðanir beinlínis um æru einstaklinga.

Umrætt lagafrumvarp yrði bandormur, þ.e. breytt yrði ýmsum sérlögum sem snerta málið og eru flest á forræði annarra ráðuneyta en dómsmálaráðuneytis. Dómsmálaráðuneytið mun semja drög að frumvarpinu. Verður leitast við að hafa að einhverju marki samræmi í frumvarpinu þannig að alvarleiki brota hafi sambærileg áhrif á t.d. embættisgengi manna til sambærilegra starfa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert