„Svona á ekki að geta gerst“

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég tek undir með framkvæmdastjóra lækninga og spítalanum að svona á ekki að geta gerst,“ segir Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra, en eins og fjallað hefur verið um svipti ungur maður sig lífi á geðdeild Landspítalans aðfaranótt föstudags eftir að hafa verið fluttur þangað í sjálfsvígshættu.

Þarf að skoða málið sérstaklega

Í yfirlýsingu frá Landspítalanum í gær kom fram að ítarleg skoðun muni fara fram á málinu, sem sé litið alvarlegum augum. Þá sagði Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala, í kvöldfréttum RÚV í gær að atvik sem þetta ættu ekki að geta gerst, og skoðað yrði hvað fór úrskeiðis. Óttarr segir í samtali við mbl.is að hann geti ekki annað en tekið undir með Ólafi. Það þurfi að skoða þetta mál sérstaklega til að læra af því og koma í veg fyrir að atvik sem þetta endurtaki sig.

Lýst var eft­ir mann­in­um aðfaranótt fimmtu­dags og fór fram um­fangs­mik­il leit í kring­um Kárs­nes. Hann fannst heill á húfi og var færður á geðdeild. Aðstand­end­um manns­ins var létt, þar sem þeir töldu að hann væri ör­ugg­ur. Hann hafði verið á geðdeild í um hálf­an sól­ar­hring þegar komið var að hon­um látn­um.

Geðheilbrigðismál þurfi sérstaka athygli

Heilbrigðisráðherra kveðst ekki geta tjáð sig að öðru leyti um einstök mál, en segir geðheilbrigðismál almennt þó þurfa sérstaka athygli.  

„Eins og ég hef sagt tel ég að það þurfi að styrkja kerfið. Mér finnst mikið talað um að kerfið sé ónýtt eða ómögulegt, en það eru auðvitað mörg góð og mikilvæg úrræði í gangi og þjónusta sem við höfum verið og erum að styrkja,“ segir Óttarr. „En það þýðir ekki að það þurfi ekki að gera enn betur.“

Segir hann mikilvægt að kerfið verði styrkt enn betur; bæði inni á stofnunum og spítölum en ekki síður í heilsugæslunni. „Þar hefur okkur tekist að auka við fjölda sálfræðinga og þar af leiðandi aðgengi að sálfræðiþjónustu í heilbrigðiskerfinu. Okkur hefur tekist að auka það umfram þá aukningu sem gert var ráð fyrir í geðheilbrigðisáætlun sem þingið samþykkti í fyrra,“ segir Óttarr.

„Þessi málaflokkur þarf sérstaka athygli hjá okkur og fær sérstaka athygli hjá okkur. Við höfum verið að bæta í málaflokkinn og þurfum að halda því áfram. Þó það sé margt gott þá þarf að bæta úr og gera betur,“ bætir hann við.

Vin­ir og ætt­ingj­ar unga manns­ins sem svipti sig lífi á …
Vin­ir og ætt­ingj­ar unga manns­ins sem svipti sig lífi á geðdeild Land­spít­al­ans aðfaranótt föstu­dags komu sam­an á Rút­stúni í Kópa­vogi á sunnudagskvöld til að minn­ast hans. mbl.is/Hanna

Vandi við að manna í stöður hjúkrunarfræðinga áhyggjuefni

Óttarr segir vinnu að úrbótum í málaflokknum vera á mörgum vígstöðum. Bendir hann á að Landspítalinn skoði stöðugt sitt verklag og ráðuneytið styðji við slíka vinnu.

En nú hefur verið fjallað um manneklu í heilbrigðiskerfinu. Er það eitthvað sem er verið að bregðast við? „Það er nú á hendi stjórnenda spítalans að halda utan um þau mál og ekki mitt að segja til um það hvernig mönnun er á einstaka deildum. En það er engin launung að það hefur verið vandi í ákveðnum heilbrigðisstéttum að manna, sérstaklega undanfarið stöður hjúkrunarfræðinga og það er áhyggjuefni. Við höfum verið í verkefnum með spítalanum að vinna í því að bæta það,“ segir hann.

Mikilvægt að skoða alvarleg atvik

Þá segir Óttarr að mikilvægt sé í heilbrigðiskerfinu að halda vel utan um það þegar svokölluð alvarleg atvik koma upp. „Það er mikilvægt að við skoðum þau sérstaklega, lærum af þeim og gerum okkar besta til að koma í veg fyrir að þau geti gerst aftur,“ segir hann og bendir á vinnu starfshóps sem skilaði niðurstöðu um alvarleg atvik í heilbrigðiskerfinu árið 2015.

Var hópnum falið að gera tillögur að verklagi í tengslum við tilkynningar og rannsókn vegna óvæntra dauðsfalla í heilbrigðisþjónustu sem ætla má að rekja megi til mistaka, vanrækslu eða óhappatilviks við meðferð sjúklings. Þá var hópnum jafnframt ætlað að fara yfir gildandi löggjöf hér á landi og kanna hvort þörf væri á breytingum.

„Þar var mikil vinna unnin, sem var sameiginleg vinna spítalans, ráðuneytisins, embætti landlæknis og lögreglunnar og verklag hefur verið bætt upp úr vinnu þess hóps. Ég geri líka ráð fyrir því að leggja fram núna í haust lagabreytingar um tilkynningarskyldu og fleiri atriði sem þurfa að vera skýrari í kringum alvarleg atvik. Þetta er mjög mikilvægt gæðamál í heilbrigðiskerfinu öllu sem er verið að vinna í á öllum vígstöðum,“ segir Óttarr.

Geðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss.
Geðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss. mbl.is/ Kristinn Ingvarsson

Fagnar opinni umræðu um geðheilbrigðismál

Mikið hefur verið fjallað um þessi mál síðustu daga, og hafa nú einhverjir stigið fram og sagt frá sambærilegum tilvikum og því sem upp kom núna fyrir helgi. Þessari vinnu er væntanlega ætlað að gera það að verkum að þegar svona mál komi upp endurtaki það sig ekki eins og virðist hafa gerst núna? „Já, vinnunni er bæði ætlað að bæta ferla og læra af þeim,“ segir Óttarr.

Þá segist hann vilja taka það sérstaklega fram að jákvætt sé hversu mikið umræðan um geðheilbrigðismál hefur opnast. „Þetta er ekki lengur eins og vildi brenna við meðhöndlað sem eitthvað feimnismál eða leyndarmál og það skiptir mjög miklu máli svo við getum bæði sem heilbrigðiskerfið og samfélag tekið höndum saman í að berjast við þessi alvarlegu vandamál,“ segir Óttarr. „Ég fagna þeirri umræðu, hún styrkir alla í þessari baráttu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert