Skulda bænum 162 milljónir

Verksmija United Silicon í Helguvík.
Verksmija United Silicon í Helguvík. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

United Silicon, sem rekur kísilmálmverksmiðju í Helguvík, hefur ekki enn greitt að fullu gatnagerðargjöld til Reykjanesbæjar fyrir lóðina sem verksmiðjan er starfrækt á. Ógreidd gatnagerðargjöld fyrirtækisins nema 162 milljónum króna.

Héraðsdómur Reykjaness veitti stjórn United Silicon heimild til greiðslustöðvunar í fyrradag til að fyrirtækið gæti freistað þess að ná bindandi nauðasamningi við lánardrottna sína.

Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, staðfestir í umfjöllun um mál þetta í  Morgunblaðinu í dag að gatnagerðargjöldin séu enn ógreidd en segir að bærinn hafi komist að samkomulagi við United Silicon í vor. „Þetta átti að fara í lögfræðilega innheimtu á sínum tíma en síðan ákváðu þeir að semja um þetta. Það var samið um greiðslutilhögun en það er bara nýbúið að gera það,“ segir Guðbrandur. Upphaflega krafan er um það bil þriggja ára gömul.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var krafan ekki greidd á sínum tíma vegna ágreinings milli Magnúsar Garðarssonar, þáverandi stjórnarformanns United Silicon, og Reykjanesbæjar um skyldur bæjarfélagsins gagnvart verksmiðjunni.

Samkvæmt tilkynningu United Silicon til hlutafélagaskrár ríkisskattstjóra í vor fór Magnús úr stjórn fyrirtækisins 6. apríl og var samið um greiðslu á gatnagerðargjöldunum í kjölfar þess.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert