Best að tína sveppina unga

Fólk kemur með afrakstur sveppatínslunnar til sérfræðinganna sem segja til …
Fólk kemur með afrakstur sveppatínslunnar til sérfræðinganna sem segja til um hverjir þeirra eru ætir. Ljósmynd/Björn Gíslason

Þeim fer stöðugt fjölgandi sem njóta þess að tína sína eigin matarsveppi, en þá skiptir líka miklu að þekkja matarsveppi frá þeim sem eru eitraðir. Á morgun standa Háskóli Íslands og Ferðafélag barnanna fyrir árlegri sveppaleit í Heiðmörk, undir stjórn Gísla Más Gíslasonar, prófessors í vatnalíffræði við Háskóla Íslands, og fleiri sveppasérfræðinga.

„Við látum alla leggja bílunum á borgarstjóraplaninu svonefnda. Þar munum við afhenda fólki leiðbeiningablöð um hvernig eigi að þekkja sveppi og matreiða þá,“ segir Gísli Már. „Við munum líka ganga um með fólki og benda á sveppina.“

Sveppagangan er ekki síður skemmtileg fyrir börn en fullorðna.
Sveppagangan er ekki síður skemmtileg fyrir börn en fullorðna. Ljósmynd/Björn Gíslason

Þá verður einnig búið að tína nokkra sveppi til að hægt sé að sýna þá helstu sem sem leita eigi að. „Þannig að fólk sé nú helst að tína þá sem eru ætir,“ útskýrir Gísli. „Við munum síðan koma okkur fyrir með borð á planinu og þangað getur fólk komið til okkar með sveppina sem það tínir og við segjum þeim hverja það á að taka með sér heim.“

Best að tína unga sveppi

Gísli segir sveppagöngurnar hafa notið mikilla vinsælda til þessa og sjálfur hefur hann fengið yfir 200 manns í sveppagöngu.

Hann mælir með að fólk tíni unga sveppi, sem ekki eru fullþroskaðir. „Þegar sveppirnir þroskast þá verða gróin stærri hluti af heildinni, auk þess sem skordýr eru þá komin í sveppina og farin að éta þá,“ segir Gísli Már og bendir á að best sé að hattur sveppsins sé heldur ekki búinn að opna sig mikið.

Gísli Már Gíslason veitir gestum í sveppagöngunni í fyrra góð …
Gísli Már Gíslason veitir gestum í sveppagöngunni í fyrra góð ráð. Ljósmynd/Björn Gíslason

Spurður hvort mikið sé af sveppum í Heiðmörk, segir Gísli Már venjulega svo vera. „Ég fann þó ekki mikið þegar ég fór upp í Heiðmörk um daginn, af því að það er búið að vera svo þurrt. Þeir þurfa rigningu,“ bætir hann við. „Það er hins vegar gert ráð fyrir að það byrji að rigna í Reykjavík í kvöld, þannig að ég á von á að það verði komið svolítið af sveppum þegar við verðum á ferðinni um ellefuleytið á morgun.“

Barrtrén góður staður til að leita sveppa

Gísli Már segir þá matsveppi sem fólk megi búast við að finna í Heiðmörkinni vera fyrst og fremst barrsveppi. „Það eru sveppir á borð við furusvepp og lerkisvepp sem er að finna við barrtrén og svo eru það líka slímgumpur, gullbroddi og kúalubbi, svo dæmi séu tekin.“

Sveppagöngurnar hafa notið mikilla vinsælda og minnist Gísli Már þess …
Sveppagöngurnar hafa notið mikilla vinsælda og minnist Gísli Már þess að hafa fengið rúmlega 200 manns í eina göngu. Ljósmynd/Björn Gíslason

Barrtrén eru góður staður að leita sveppa að sögn Gísla Más, auk þess sem kúalubbann sé að finna við birkitré. „Sveppir eru í samlífi við trén,“ segir hann. „Æxlunarhluti sveppsins kemur upp úr jörðinni, en annars eru þetta sveppaþræðir niðri í jörðinni sem tengjast rótarkerfi trjánna. Báðir hagnast á þessu samlífi því sveppirnir auka næringarupptöku trjánna sem stækkar rótarkerfi þeirra.“

Taka með körfu, bréfpoka og vasahníf

Gísli bendir fólki á að taka með sér körfu eða bréfpoka til að geyma sveppina í, því plastpokar henti illa til sveppatínslu „Þeir klessast svo leiðinlega utan í þá.“ Eins eigi menn að taka með sér vasahníf svo þeir geti strax skorið um leið og þeir tína sveppina þann hluta af sem var niðri í moldinni. Annars óhreinka þeir hina sveppina sem búið er að tína.

Öll fjölskyldan getur haft gaman af sveppatínslunni.
Öll fjölskyldan getur haft gaman af sveppatínslunni. Ljósmynd/Björn Gíslason

Hist verður á svokölluðu borgarstjóraplani í Heiðmörk klukkan 11. Þeir sem beygja inn í Heiðmörkina í gegnum Rauðhóla geta fengið leiðsögn þar um það hvernig þeir komist á borgarstjóraplanið.

Gangan er hluti af verkefni Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands, Með fróðleik í fararnesti, sem hófst á aldarafmæli skólans árið 2011. Reynslu og þekkingu fararstjóra Ferðafélagsins og þekkingu kennara og vísindamanna Háskólans er þar blandað saman með það að markmiði að vekja áhuga almennings á fræðslu og hollri útivist og fjölga valkostum í þeim efnum. 

Miklu skiptir að geta borið kennsl á sveppina og vita …
Miklu skiptir að geta borið kennsl á sveppina og vita hverjir þeirra henta til átu. Ljósmynd/Björn Gíslason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert