Björt segir ástandið grafalvarlegt

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra.
Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra. mbl.is/Eggert

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra segir ástandið í Reykjanesbæ vegna „mengandi stóriðjunnar í Helguvík“ grafalvarlegt. Hún segist enga afslætti gefa á mengunarstöðlum og lýðheilsuviðmiðum.

„Fólk er svipt frelsi sínu því það lokar dyrum, gluggum og þorir ekki að senda börn sín út í andrúmsloft sem það finnur greinilega sjálft að ógnar heilsu þeirra og líðan,“ skrifar Björt á Facebook-síðu sína. „Ég hef gefið út þau skilaboð bæði út á við og inn á við að ég vil enga afslætti gefa á mengunarstöðlum, lýðheilsuviðmiðum og aðgerðum í þá veru.“

Björt segir að síðasta sólarhringinn hafi margir sett sig í samband við hana út af stöðu mála í tengslum við kísilver United Silicon. Hún segir fólk eðlilega krefjast svara. Ráðherrann segist ekki hafa tölu yfir þann fjölda sem hafi haft samband og því kjósi hún að gefa svör sín á Facebook.

„Á þessum tímapunkti er mér ekki ljóst hver nákvæmlega staðan er hjá fyrirtækinu eða hvað hefur gerst, en ég hef þegar beðið um upplýsingar frá [Umhverfisstofnun] þess efnis og bíð svara.“ Björt segir það þó skýrt að „ef slokknað hefur á ljósbogaofni US (eða hann farið undir [ákveðið] hitastig) þá hefur Umhverfistofnun þegar boðað stöðvun á framleiðslu í bréfi sínu til fyrirtækisins í sl. viku.“

United Silicon fékk frest þar til í dag til að svara bréfi Umhverfisstofnunar þar sem áform hennar um að stöðva starfsemina voru kynnt. Í bréfinu kom fram að starfsemin verði stöðvuð fari afl ofnsins undir ákveðið viðmið eða slökkt sé á honum í klukkustund eða lengur en þó ekki síðar en 10. september.

Umhverfisstofnun hefur sagt að ekki verði gripið til þessa aðgerða fyrr en frestur fyrirtækisins verði útrunninn. Í dag er komið að þeim degi.

Síðustu daga hafa fjölmargir íbúar í Reykjanesbæ kvartað undan lyktarmengun frá verksmiðjunni. Slökkt var á ofni hennar á laugardag. Í gær var ekki búið að kveikja á honum aftur en mengun getur lagt frá honum eftir að á honum er slökkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert