Hjólreiðar við allra hæfi um helgina

Tour of Reykjavík fór í fyrsta skipti fram í fyrra. …
Tour of Reykjavík fór í fyrsta skipti fram í fyrra. Í ár verður boðið upp á tvær dagleiðir, 125 km og 60 km. Ljósmynd/ÍBR

Um 1.000 hjólreiðakappar munu leggja undir sig borgina og næsta nágrenni um helgina þegar Tour of Reykjavík fer fram. Þetta er í annað sinn sem viðburðurinn er haldinn. Í fyrra fór keppnin fram á einum degi en í ár dreifist hún á tvo daga.

Í ár verður Tour of Reykjavík skipt upp í tvær dagleiðir. „Við erum að stíga næsta skref í að gera keppnina að alþjóðlega viðurkenndri götuhjólakeppni að erlendri fyrirmynd þar sem að boðið er upp á fleiri en eina dagleið,“ segir Kjartan Freyr Ásmundsson, markaðs- og þróunarstjóri ÍBR og einn skipuleggjenda Tour of Reykjavík. „Stefnan er sett á fjórar dagleiðir innan fimm ára.“

Vilja efla hjólreiðar á afreksstigi hér á landi

Markmið viðburðarins er tvíþætt, annars vegar að almenningur taki virkari þátt í hjólreiðaviðburðum en ekki síður að efla hjólreiðar á afreksstigi hér innanlands. Á laugardaginn verður áhersla lögð á keppnishjólreiðar, en þá munu hjólreiðakapparnir fara 125 kílómetra leið í fylgd lögreglu frá Laugardal, um Mosfellsheiði til Þingvalla og Nesjavallaleið til baka.

Sigurvegarinn í heildarkeppninni frá því í fyrra, danski hjólreiðakappinn Tobias Mörch, mun taka aftur þátt í ár. „Hann stakk aðra keppendur af í fyrra og sigraði mjög örugglega,“ segir Kjartan, sem vonast til að erlend þátttaka aukist ár frá ári sem vonandi mun hvetja innlent hjólreiðafólk til dáða. 

Rás- og endamark verður fyrir framan Laugardalshöllina en þar safnast þátttakendur saman fyrir ræsingu. Í Laugardalshöllinni verður hægt að nýta sér sérfræðiþjónustu starfsmanna helstu hjólaumboða og þar verður einnig hægt að fylgjast með keppninni. „Keppnin verður mynduð í bak og fyrir, myndatökuvél verður meðal annars komið fyrir á mótorhjóli sem mun fylgja keppendum eftir og einnig mun dróni mynda keppendur við Hengil,“ segir Kjartan.

Rík áhersla verður lögð á öryggismál í keppninni í ár. „Öryggisbílar, lögregla, dómarabílar og aðrir þjónustubílar munu fylgja hjólreiðafólki á báðum dagleiðunum frá upphafi til enda,“ segir Kjartan.

Borgarhringur í seinni dagleið

„Þrátt fyrir að verið sé að gera meira fyrir keppnishlutann með því að fjölga dagleiðunum í tvær og hafa lögreglufylgd munum við einnig bjóða upp á vegalengdir sem eru meira hugsaðar fyrir almenning,“ segir Kjartan.

Einkunnarorð Tour of Reykjavík eru „Hjólreiðar við allra hæfi” og á laugardeginum gefst börnunum einnig tækifæri til að taka þátt á sérstakri barnabraut í Laugardalnum sem unnin er í samstarfi við Hjólakraft. „Sápukúluvélar og reykvélar verða einnig á staðnum sem munu skapa skemmtilega stemningu, auk þess sem Áttan mun mæta á svæðið,“ segir Kjartan. Von eru á fyrstu hjólreiðaköppum í mark rétt eftir klukkan 11 og er því tilvalið fyrir börnin að spreyta sig í hjólabrautinni og taka svo á móti hjólreiðaköppunum ásamt fjölskyldum sínum.

Sérstök barnabraut verður sett upp í Laugardalnum á laugardag í …
Sérstök barnabraut verður sett upp í Laugardalnum á laugardag í samvinnu við Hjólakraft. Ljósmynd/ÍBR

Á sunnudaginn fer seinni dagleiðin fram en hún samanstendur af þremur 20 kílómetra borgarhringjum eða samtals 60 kílómetrum, þar sem meðal annars verður hjólað um Sæbraut, niður í miðbæ og hringinn í kringum Tjörnina. „Þetta er mjög falleg leið og farið verður í gegnum marksvæðið að loknum hverjum hring svo stemning ætti bæði að skapast á brautinni og á marksvæðinu,“ segir Kjartan. Þá verður í boði fyrir almenning, og þá sem yngri eru, að fara einn hring á brautinni.

Færri lokanir en í fyrra

Í fyrra myndaðist nokkur óánægja meðal almennings vegna lokana í tengslum við keppnina, sérstaklega í miðborginni. Kjartan segir að höfuðborgarbúar muni finna minna fyrir lokunum í ár.

„Lokanir á umferðargötum munu ekki hafa jafn mikil áhrif á íbúa höfuðborgarsvæðisins í ár eins og í fyrra. Fyrri daginn förum við inn og út úr borginni í lögreglufylgd. Götunum verður ekki lokað og á því ekki að hafa nein áhrif á íbúa höfuðborgarsvæðisins en auðvitað óskum við eftir að fólk sem verður á ferðinni á milli klukkan 11 og 12 sýni biðlund.“

Umfangsmiklar lokanir voru vegna Tour of Reykjavík í fyrra. Skipuleggjendur …
Umfangsmiklar lokanir voru vegna Tour of Reykjavík í fyrra. Skipuleggjendur keppninnar segja að almenningur muni finna minna fyrir lokunum í ár. Ljósmynd/Jón Pétur

Á sunnudeginum má búast við lokunum norðan við Miklubraut. „Við byrjum snemma og munum opna götur fyrr en í fyrra,“ segir Kjartan, sem gerir ráð fyrir að allar götur verði opnaðar klukkan 12 á sunnudag. Við höfum mætt á samráðsfundi með fulltrúum lögreglu, slökkviliðs, ferðaþjónustunnar og strætó og við vinnum þetta í sátt og samlyndi,“ segir Kjartan.

Hér má finna upplýsingar um lokanir í tengslum við Tour of Reykjavík.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert