Benedikt: Óeðlilegt að segja Bjarna einum

Benedikt Jóhannesson, fjámála- og efnahagsráðherra, kynnti fjárlög fyrr í vikunni. …
Benedikt Jóhannesson, fjámála- og efnahagsráðherra, kynnti fjárlög fyrr í vikunni. Afgreiðsla þeirra er nú í uppnámi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það hefði kannski verið eðlilegt að þetta hefði verið almennt trúnaðarmál – að Bjarna hefði ekki verið sagt frá þessu,“ segir Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar um atburði gærkvöldsins.

Benedikt er staddur á Akureyri. Hann segir að niðurstaðan hafi komið honum á óvart. Hann virði niðurstöðu annarra flokka en segir að hann hafi ekki upplifað trúnaðarbrest í ríkisstjórnarsamstarfinu. „Ég talaði mikið við Bjarna um þetta í gærkvöldi og hann fór yfir málið. Það var með svipuðum hætti og fram hefur komið.“ Hann segir að málið að baki þessum stjórnarslitum sé í grunnin svo óhugnalegt að erfitt  sé að átta sig á, einum og hálfum mánuði seinna, hvað hefði verið rétt í stöðunni. Hann segir þó efnislega að óeðlilegt hafi verið að segja Bjarna einum frá þessu.

Benedikt segir erfitt að átta sig á þeirri stöðu sem upp sé komin. Fyrir honum sé niðurstaðan vonbrigði. „Ég átti ekki von á þessu núna, ég get alveg sagt það.“

Spurður um framhaldið bendir Benedikt á að erfitt hafi reynst að mynda ríkisstjórn í kjölfar síðustu kosninga. „Miðað við reynsluna í fyrravetur eru ekki margir möguleikar í stöðunni. Það þarf að kjósa en það þarf að stjórna landinu á meðan.“ Hann segir að fyrsti mögulegi kjördagur sé líklega seint í október. Tíminn sé knappur áður en afgreiða þurfi fjárlög, líkt og í fyrra. Hann hafi þó trú á að það geti tekist, líkt og fyrir ári síðan.

Benedikt segist virða ákvörðun Bjartrar framtíðar um að slíta samstarfinu. Spurður hvort hann skilji hana hugsar hann sig um svolitla stund og segir svo að erfitt sé að setja sig í þeirra spor. „Mér finnst auðvitað leiðinlegt að svona fari því ég hef haft bæði gagn og gaman að samstarfinu við Bjarta framtíð. Ég hef verið ánægður í þessari ríkisstjórn. Menn voru ekki sammála um öll mál – en þess vegna eru þetta líka þrír flokkar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert