Bilun í hitaveituröri við Hringbraut

Búið er að stöðva lekann við Miklubraut og var byrjað …
Búið er að stöðva lekann við Miklubraut og var byrjað að dæla upp úr brunninum þar, en erfiðlegar gekk að stoppa lekann á Víðimelnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bilun hefur orðið í hitaveituröri Veitna við gatnamót Hringbrautar og Bræðraborgarstígs. Blaðamaður á staðnum segir að mikil gufa sé sjáanleg, eins og meðfylgjandi mynd staðfestir. Bíll frá Veitum er á staðnum.

Þær upplýsingar fengust hjá Veitum að ekki liggi enn fyrir hvað gerst hafi. Menn frá fyrirtækinu séu á leiðinni til að athuga hvað úrskeiðis hafi farið. 

Uppfært klukkan 16:22: Mikið heitt vatn lekur úr röri sem farið er í sundur. Slökkviliðið er mætt á svæðið.

Aðeins rúmt ár er síðan vatnsæð fór í sundur á Hringbraut, austan við Hofsvallagötu. Þá urðu miklar umferðartafir.

Heita vatnið dældist upp úr brunni við gangstétt við Miklubraut …
Heita vatnið dældist upp úr brunni við gangstétt við Miklubraut og við endann á Víðimel. Þá sprautaðist einnig vatn upp úr sprungum í gangstéttinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Uppfært klukkan 17:03 

Samkvæmt upplýsingum frá Veitum er ljóst að nokkurt tjón hefur orðið vegna heitavatnslekans og hefur heitt vatn m.a. flætt inn í kjallara húsa á svæðinu. Biðja Veitur íbúa þessara húsa að fara varlega þar sem vatnið getur verið sjóðheitt og valdið brunasárum við örsnögga snertingu.

Reikna má með heitavatnsleysi víða í Vesturborginni á meðan gert verður við lögnina og umferðartöfum á og við Hringbraut.

Eins og sjá má er nokkuð mikil gufa á svæðinu.
Eins og sjá má er nokkuð mikil gufa á svæðinu. mbl.is/tobba

Að sögn ljósmyndara mbl.is á vettvangi voru fjórir bílar frá Veitum á staðnum, sem og dælubílar frá slökkviliðinu, sjúkrabílar og lögregla. Þá hafði annarri akrein Miklubrautar verið lokað, en heita vatnið dældist upp úr brunni við gangstétt við Miklubraut og við endann á Víðimel. Þá sprautaðist einnig vatn upp úr sprungum í gangstéttinni. 

Svo virtist sem búið væri að stöðva lekann við Miklubraut og var byrjað að dæla upp úr brunninum þar, en erfiðlegar gekk að stoppa lekann á Víðimelnum.

Slökkviliðið er mætt á svæðið.
Slökkviliðið er mætt á svæðið. mbl.is/aðsent
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert