Voru reikulir eins og eftir árekstur

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Sé flett er hálft ár aftur í sögubókunum þá var mín afstaða þá skýr. Ég taldi að það væri nánast bara handavinnan eftir og það væri frekar auðvelt að koma þessu flokkum saman. Ég hef svo sem ekkert breytt um skoðun á því,“ segir Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is spurður hvort raunhæft hafi verið að hans áliti að koma saman fimm flokka stjórn í kjölfar stjórnarslitanna fyrir helgi.

Talsverðar umræður hafa verið í gangi um möguleikann á að mynda fimm flokka ríkisstjórn án þátttöku Sjálfstæðisflokksins. Logi segist telja að slíkt hefði verið mögulegt og að hann væri þeirrar skoðunar að ekki hefði átt að setja á laggirnar starfsstjórn með Sjálfstæðisflokkinn innanborðs. Tvær tilraunir voru gerðar eftir þingkosningarnar 2016 til þess að mynda fimm flokka stjórnir en báðar runnu þær hins vegar út í sandinn.

„Ég taldi ekki eftir síðustu kosningar og tel ekki núna að erfitt væri að mynda slíka stjórn,“ segir Logi. Spurður hvort hann telji að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hafi verið of fljótur á sér að fela fráfarandi ríkisstjórn að sitja áfram sem starfsstjórn og samþykkja þingrofsbeiðni Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra neitar hann því.

„Ég held að þetta hafi gerst snöggt og hann [forsetinn] hafi ekki endilega verið með aðra kosti í stöðunni vegna þess að menn voru óvissir og einhvern veginn reikulir fyrst á eftir eins og náttúrulega gerist þegar þú vaknar upp við árekstur. Þá smám saman skýrast hlutirnir í hausnum á þér og menn átta sig á því í hvaða stöðu þeir eru komnir.“

Spurður hvort forsetinn hefði átt að gefa stjórnmálaflokkunum nokkra daga til þess að meta stöðuna og kanna hvað væri hægt að gera segir Logi: „Ég ætla svo sem ekki að svara neinu um það. Það er búið að samþykkja þingrof og það tekur gildi 28. október.“ Hann segist hins vegar telja að eðlilegt hefði verið að fela VG í krafti stærðar sinnar í skoðanakönnunum og þess trausts sem flokkurinn njóti samkvæmt könnunum að fara inn í starfsstjórn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert