„Þeirra leið til að brjóta mann niður“

Pape Mamadou Faye hefur búið á Íslandi frá 11 ára …
Pape Mamadou Faye hefur búið á Íslandi frá 11 ára aldri. Hann hefur upplifað ótal dæmi um fordóma og hatursorðræðu í gegnum tíðina. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég gæti setið hérna í allan dag og sagt ykkur sögur, því miður,“ segir Pape Mamadou Faye, framherji Víkings Ólafsvík. Sögurnar sem hann á við tengjast allar fordómum og/eða hatursorðræðu á einhvern hátt. Pape var meðal þátttakenda pallborðsumræðu um fordóma og hatur í íslensku samfélagi á ráðstefnu um hatursorðræðu sem fram fór í Hörpu í dag.

Æskulýðsvettvangurinn stóð fyrir ráðstefnunni og eitt af markmiðum hennar er að leita leiða til að til þess að koma í veg fyrir að hatursorðræða festi sig í sessi í samfélaginu. Pape miðlaði reynslu sinni ásamt Maríu Helgu Guðmundsdóttur, formanni samtakanna ´78, og Söru Mansour, aktívista og laganema.

Hunsaður af þjálfaranum

Pape er fæddur í Senegal og ólst þar upp til 11 ára aldurs. Þá flutti hann til Íslands og hóf skólagöngu í Austurbæjarskóla. „Þar lærði ég íslensku og var í góðum bekk. Ég er mikill íþróttamaður eins og flestir krakkar í Afríku og byrjaði að spila fótbolta á götunni með vinum mínum og frændfólki. En þegar ég flutti til Íslands lenti ég í körfuboltabekk,“ segie Pape.

Hann lýsir því hvernig skólafélagarnir voru yfir sig spenntir að fá nýjan liðsmann í körfuboltann, en hann skildi samt ekki alveg af hverju spenningurinn stafaði. „Ég vissi ekki að á þeim tíma var það þannig að þegar Íslendingar sáu dökkan mann var fyrsta spurningin sem lögð var fyrir mann: „Spilarðu körfubolta?“ Ég talaði bara frönsku á þessum tíma en ég skildi „basketball“ og fór með strákunum á körfuboltaæfingu. Ég hafði aldrei áður spilað körfubolta en hef alltaf verið mikill íþróttamaður og var fljótur að læra.“  

Pape æfði körfubolta með Val en fótboltinn var alltaf númer eitt, tvö og þrjú og því ákvað Pape líka að mæta á fótboltaæfingar hjá Val, þá 12 ára gamall. „Þegar ég mætti á fyrstu fótboltaæfinguna sýndi þjálfarinn mér að ég væri ekki velkominn í hans lið,“ segir Pape og lýsir því hvernig hann fékk að hita upp með liðinu. Að því loknu var skipt í fjögurra manna lið. „En hann hunsaði mig allan tímann og lét eins og ég væri ekki á staðnum.“ Þetta var fyrsta og síðasta æfingin sem Pape mætti á hjá Val. Hann færði sig yfir til Fylkis þar sem móttökurnar voru mjög góðar.

Upplifði fordóma frá andstæðingum á vellinum og foreldrum þeirra

Hatursorðræða og fordómar hafa samt sem áður einkennt hluta af lífi Pape áfram og sérstaklega í gegnum knattspyrnuiðkunina. Allt frá unga aldri upplifði Pape fordóma frá andstæðingum sínum á vellinum sem og foreldrum þeirra.

„Þetta var þeirra leið að kalla manna niggara af því ég var einn af þeim gæjum sem voru að brillera í liðinu mínu. Þetta voru fyrstu orðin sem ég heyrði og það var sárt en hvað getur maður gert?“ spyr Pape, og hann segir að í raun sé mjög lítið sem hann geti gert. „Þetta er bara þeirra leið til að reyna að brjóta mann niður. En maður hélt áfram og íþróttir hafa gefið mér stórt tækifæri til að skoða Ísland og jafnvel Evrópu.“

Pape Mamadou Faye tók þátt í pallborðsumræðum ásamt Maríu Helgu …
Pape Mamadou Faye tók þátt í pallborðsumræðum ásamt Maríu Helgu Guðmundsdóttur, formanni samtakanna ´78 og Söru Mansour, aktívista og laganema á ráðstefnu um hatursorðræðu í Hörpu í dag. mbl.is

Meinað að borða á veitingastað vegna litarhafts

Pape lýsir því hvernig hann hefur fundið fyrir mismunun vegna kynþáttar síns. Hann nefnir tvö dæmi, annars vegar þegar eigandi veitingastaðar í Reykjavík meinaði honum að borða þar því hann vildi ekki að dökkur maður borðaði á staðnum. Félag Pape á þessum tíma hafði gert samning við staðinn um að leikmenn liðsins fengju að borða á staðnum.

„Ég labbaði inn með öðrum úr liðinu og mætti eigandanum og fannst hann frekar grimmilegur í framan. Ég hugsaði bara: Gerði ég eitthvað? Hann leyfði okkur að borða en þegar ég var á leiðinni heim var hringt frá félaginu mínu og sagt að ég mætti ekki fara þangað aftur af því að eigandinn sætti sig ekki við það að dökkur maður borðaði hjá þeim. Ég þurfti að sætta mig við það.“ Félag Pape greip til þess ráðs að gera samning við annan veitingastað þar sem Pape fékk að borða. Pape segist ekki hafa mikið pælt í þessari ákvörðun á þeim tíma, hann vissi bara að félagið vildi forðast sem mest drama, eins og hann orðar það.  

Hitt dæmið sem Pape nefndi tengist íbúðarleit. „Það getur reynst erfitt að vera dökkur maður í íbúðarleit í Reykjavík, ég er ekki að grínast.“ Hluti af samningi Pape við félagið sem hann spilaði með á þeim tíma var að félagið myndi útvega honum íbúð. Þegar það loksins tókst spurði leigusalinn, sem hafði lýst ánægju sinni yfir því að fá fótboltamann í íbúðina, hver leigjandinn væri. Þegar hann vissi að um Pape væri að ræða rifti hann leigusamningnum.

Pape segist geta nefnt óteljandi dæmi um upplifun sína af fordómum og hatursorðræðu í íslensku samfélagi. Hann hefur samt sem áður trú á að hlutirnir séu að breytast til hins betra. „Unga kynslóðin er að taka næsta skref. En við þurfum að kenna börnum í skólunum hvernig á að virða fólk, sama hvernig það er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert