Vilja ekki aðildarviðræður við ESB

AFP

Fleiri eru andvígir því að taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið á nýjan leik en þeir sem eru því hlynntir samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem gerð var af Gallup fyrir samtökin Já Ísland sem eru hlynnt inngöngu Íslands í sambandið.

Þannig eru 47,8% andvíg því að taka upp viðræður við inngöngu í Evrópusambandið en 38,3% eru því hlynnt. Ef aðeins er miðað við þá sem taka afstöðu með eða á móti eru 55,5% andvíg því að hefja slíkar viðræður en 44,5% því hins vegar hlynnt.

Fleiri eru andvígir því en hlynntir að taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið óháð kyni, aldri, búsetu, tekjum og menntun fyrir utan aldurshópinn 18-24 ára, íbúa Reykjavíkur, þá sem hafa eina milljón eða meira í mánaðartekjur og þá sem hafa háskólapróf.

Frétt mbl.is: Mikill meirihluti vill ekki í ESB

Meirihluti kjósenda Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs vill taka upp viðræður um inngöngu í Evrópusambandið en meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Flokks fólksins eru því andvígur.

Þannig vilja 87% kjósenda Samfylkingarinnar taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið en 9% eru því andvíg. 83% kjósenda Pírata er hlynnt slíkum viðræðum en 15% andvíg og 45% kjósenda VG vilja aðildarviðræður við sambandið en 34% eru á móti því.

Hins vegar vilja 78% kjósenda Sjálfstæðisflokksins ekki taka upp slíkar viðræður við Evrópusambandið en 10% eru því hlynnt. Hjá Framsóknarflokknum eru hlutföllin 72% gegn 14% og hjá Flokki fólksins 65% gegn 26%.

Skoðanakönnunin var gerð dagana 11.-24. september. Úrtakið var 1.435 manns á öllu landinu. Fjöldi svarenda var 854 og svarhlutfall 59,5%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert