Eistnaflug verður haldið næsta sumar

Skipuleggjendur Eistnaflugs.
Skipuleggjendur Eistnaflugs. Ljósmynd/Aðsend

Tekist hefur að fjármagna félagið sem stendur að baki Eistnaflugi í Neskaupstað og verður rokkhátíðin því haldin næsta sumar. Nýir hluthafar eru teknir við og eru þar stærstir SÚN, Karl Óttar Pétursson og Birgir Axelsson. Stefán Magnússon hefur selt hlut sinn í félaginu og dregið sig úr stjórn, vegna mikilla anna í starfi sínu sem framkvæmdastjóri veitingastaðarins Hard Rock.

„Við sem höfum tekið við keflinu munum halda áfram því frábæra starfi sem Stefán og Hrefna Hugosdóttir hafa unnið öll þessi ár,“ segir í tilkynningu.

Ný stjórn og framkvæmdastjórn félagsins hefur tekið við og er skipulagning næsta árs þegar hafin á fullu.

Fjarðabyggð, fyrirtæki og hljómsveitir lögðu einnig sitt af mörkum við endurskipulagninguna.

Frá Eistnaflugi síðasta sumar.
Frá Eistnaflugi síðasta sumar. Ljósmynd/Áfangastaðurinn Austurland/Daniel Byström

Tilkynningin í heild sinni:

„Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum gekk síðasta Eistnaflug ekki eins og áætlanir gerðu ráð fyrir. Fjárhagsleg endurskipulagning Eistnaflugs hefur gengið vonum framar og hefur nú tekist að fjármagna félagið sem stendur að baki hátíðinni þannig að hún verður haldin sumarið 2018. Nýir hluthafar hafa tekið við og eru þar stærstir; SÚN, Karl Óttar Pétursson og Birgir Axelsson. Þá er komin ný stjórn og framkvæmdastjórn félagsins og er skipulagning næsta árs þegar hafin á fullu. Við þessa endurskipulagningu lagði Fjarðabyggð, fyrirtæki og hljómsveitir jafnframt sitt af mörkum.

Eistnaflug hefur stækkað mikið síðustu ár og er nú orðin vel þekkt alþjóðleg þungarokkshátíð. Mikil vinna fylgir skipulagningu hátíðar að þessari stærðargráðu í litlu landi. Vegna mikilla anna í starfi sínu sem framkvæmdarstjóri Hard Rock á Íslandi hefur Stefán Magnússon selt hlut sinn í félaginu og dregið sig út úr stjórn.  Við sem höfum tekið við keflinu munum halda áfram því frábæra starfi sem Stefán og Hrefna Hugosdóttir hafa unnið öll þessi ár.

Við sem tökum við erum ekki ókunnug Eistnaflugi og höfum flest unnið mjög náið með Stefáni og Hrefnu við skipulagningu hátíðarinnar í gegnum árin. Okkar ætlun er að halda hátíðinni áfram á þeirri braut sem Stefán og Hrefna hafa markað. Við erum þeim ævinlega þakklát fyrir að þessi frábæra hugmynd, um þungarokkshátíð í Neskaupstað, sem varð að þessum stórkostlega tónlistarviðburði sem hefur fest sig í sessi í hjörtum okkar allra.

Enn þá eigum við eftir að selja 10% í félaginu og er þeim sem hafa áhuga á að eignast hlut bent á að hafa samband á netfangið eistnaflug@eistnaflug.is 

Við þökkum öllum þeim sem hafa stutt okkur í gegnum þetta ferli.

Lengi lifi þungarokkið

Stjórn og framkvæmdastjórn Eistnaflugs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert