Boðflennur á fundi sjálfstæðismanna

Vel fór á með píratanum Unnari Þór Sæmundssyni og þingmanninum …
Vel fór á með píratanum Unnari Þór Sæmundssyni og þingmanninum Brynjari Níelssyni. Ljósmynd / Unnar Þór Sæmundsson

„Ég var sérstaklega ungur í anda þarna í gærkvöldi,“ segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem í gær hélt erindi á kvöldi á vegum Ungra sjálfstæðismanna um veip, eða rafrettur.

Brynjar segir að sér hafi verið boðið til fundarins til að kynna sýn sína á það hvernig hann sjái fyrir sér löggjöf um veip. Fundurinn fór fram í Hlíðarsmára og á bilinu 30-40 manns sóttu hann.

Á Facebook síðunni Jæja kemur fram að nokkrar boðflennur hafi mætt á fundinn. Þar voru á ferðinni Píratar. Brynjar segist telja að viðhorf Pírata og ungra sjálfstæðismanna, hið minnsta, fari ágætlega saman. Boðflennunum var því vel tekið að hans sögn. „Mér þótti rétt við þessar aðstæður að setja á mig Píratahúfu,“ segir Brynjar léttur í bragði.

Brynjar er ekki hrifinn af hugmyndum um að rafrettur skuli falla undir tóbakslöggjöfina, enda sé ekki um tóbak að ræða. Hann vill að um nikótínneyslu af þessum toga verði smíðuð lög við hæfi, rétt eins og um nikótíntyggjó. Hjá því verði ekki komist. Innflutningur á nikótín-vökva í rafrettur og dreifing rafretta er bannað.

Brynjar segist sjálfur veipa endrum og eins, í viðleitni sinni til að draga úr tóbaksfíkn, en hann hafi hingað til mest verið í þar til gerðu tyggjói. „Það er ágætt að veipa til að finna stemminguna. Þetta hjálpar fíklunum,“ segir hann.

Brynjar segir aðspurður að vel hafi farið á með pírötum og sjálfstæðismönnum í gærkvöldi. „Ég var bara eins og einn af ungmennunum,“ segir hann upprifinn.

Unnar Þór Sæmundsson, umboðsmaður lista Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður, staðfestir að Pírötum hafi verið mjög vel tekið. Það sé svona sem byggja eigi brýr í stjórnmálum. „Ég verð að viðurkenna að ég var hissa hversu vel þau tóku í þetta,“ segir hann. Kvöldið hafi verið mjög áhugavert og skemmtilegt. „Ég get ekki sagt að við deilum mörgum hugsjónum en það er ýmislegt sem við getum sameinast um og veip er eitt af því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert