Borgin fær Sjómannaskóla- og Veðurstofulóð

Um er að ræða lóðirnar við Veðurstofuna og Sjómannaskólann.
Um er að ræða lóðirnar við Veðurstofuna og Sjómannaskólann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Borgarráð Reykjavíkur hefur staðfest samningsniðurstöðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins og borgarinnar um að ríkið afsali sér Sjómannaskóla- og Veðurstofulóð til borgarinnar. Gert er ráð fyrir að í það minnsta 270 litlar og hagkvæmar íbúðir fyrir stúdenta, ungt og efnaminna fólk rísi á lóðunum. 

Um er að ræða fyrstu lóðirnar sem skipulagðar verða undir íbúðabyggð samkvæmt viljayfirlýsingu fjármálaráðherra og borgarstjóra sem undirrituð var 2. júní síðastliðinn, sem hluti af Húsnæðissáttmála stjórnvalda. Alls er áætlað að um 4.000 íbúðir geti risið á lóðum sem ríkið og Reykjavíkurborg semja nú um.

Auk þeirrar samningarniðurstöðu sem þegar liggur fyrir standa viðræður yfir milli ríkis og Reykjavíkurborgar um eftirfarandi reiti: Landhelgisgæslulóð við Seljaveg, lóð Borgarspítala, Keldur og Keldnaholt og svæði við Þjórsárgötu og Þorragötu. Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að viðræður gangi vel og vonir standi til að þeim ljúki á næstu vikum eða mánuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert