Kæru vegna hreindýraveiða vísað frá

Samtökin Jarðarvinir segja hreindýraveiðar ekki standast lög um velferð dýra.
Samtökin Jarðarvinir segja hreindýraveiðar ekki standast lög um velferð dýra. Sigurður Aðalsteinsson

Kæru samtakanna Jarðarvina til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu vegna útgáfu hreindýraveiðileyfa var vísað frá af embættinu hinn 27. september síðastliðinn. Samtökin kærðu forstjóra Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðherra í september, vegna meintra brota gegn lögum um velferð dýra.

Í kærunni sagði meðal annars að hrein­dýra­veiðar brytu í bága við lög um dýra­vel­ferð, þar sem þær væru ekki gerðar af nauðsyn, held­ur væru fyrst og fremst skemmti­atriði þeirra sem þær stunduðu. Auk þess væru kálfar skotnir of snemma frá mæðrum sínum.

Embætti lögreglustjóra vísaði kærunni frá þar sem í lögum um velferð dýra segir að hin meintu brot skuli einungis sæta rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Matvælastofnunar. Jarðarvinir höfðu áður tilkynnt málið til Matvælastofnunar, sem hefur ekki séð tilefni til að kæra til lögreglu.

Í frávísunarbréfi frá saksóknarfulltrúa lögreglustjóra segir ennfremur að af hálfu embættisins hafi kæra Jarðarvina ekki lýst refsiverðu broti.

Samkvæmt Ole Anton Bieltvedt, stofnanda Jarðarvina, hafa samtökin brugðist við með því að kæra ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til ríkissaksóknara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert