Æskuvinurinn frá Máritíus fundinn

Ragnar var 8 ára þegar hann flutti með fjölskyldu sinni …
Ragnar var 8 ára þegar hann flutti með fjölskyldu sinni til Máritíus. Hér er hann að njóta lífsins á ströndinni. Ljósmynd/Aðsend

„Það passar, það passar. Ég sá fréttina í gær [á mánudag], þetta er svolítið merkilegt og ég er nokkuð viss um að ég sé umræddur „Ratner“.“

Þetta segir Ragnar Magnús Guðmundsson, sem bjó ásamt fjölskyldu sinni í Máritíus á árunum 1971 til 1974. Mbl.is birti nýverið frétt um breska konu, Jean Reeve, sem langar að koma kær­asta sín­um, Steve Bumstead, á óvart á sex­tugsaf­mæl­inu á næsta ári með því að hafa uppi á ís­lensk­um æsku­vini hans, sem líklega heitir „Ratner.“

Frétt mbl.is: Leitar að íslenskum æskuvini

Fjölmargar ábendingar bárust og snerust þær allar að Ragnari sem man vel eftir Steve Bumstead og gæluapanum Mingo. „Það var svolítið merkilegt að lesa þetta, ég trúði nú ekki alveg að þetta væri ég en svo stemmdi allt meira og meira,“ segir Ragnar. Fjöldi fólks hafði einnig beint samband við Ragnar eða aðra fjölskyldumeðlimi. „Það eru nokkrir búnir að hringja í bæði mig og systur mínar þannig að þetta hefur greinilega svínvirkað.“

Meðal upplýsinga sem Jean hafði frá Steve var að Ragnar ætti þrjár systur og að sú yngsta heiti Þóra. „Við bjuggum þarna og ég á þessar systur, yngri systirin heitir ekki Þóra heldur Dóra, en þetta er allt svona nokkuð ljóst sko.“

Ragnar ásamt systrum sínum þremur í Rose Hill, hverfinu þeirra …
Ragnar ásamt systrum sínum þremur í Rose Hill, hverfinu þeirra í Port Louis á Máritíus. Ljósmynd/Aðsend

Fjölskylda Ragnars flutti til Máritíus árið 1971 vegna atvinnu föður hans, Gunnars Guðmannssonar, sem starfaði fyrir matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO). „Pabbi var þarna á vegum Sameinuðu þjóðanna að kanna fiskimið, hann er sjómaður,“ segir Ragnar.

Ragnar er fimm árum yngri en Steve og segir að það hafi tekið hann smá tíma að grafa upp æskuminningarnar. „Ég kannast alveg við þetta en ég var ekki nema sjö ára þegar þetta var, þannig að ég er aðeins yngri en hann. Mig rámar í hann þegar að ég sé myndina af honum en ég er bara búinn að rifja það upp í rólegheitum. Það er samt ekkert ljóslifandi svo ég segi alveg eins og er. En ég meina, ég man alveg mjög vel eftir að hafa búið þarna og ég man eftir krökkum í næsta húsi og ég man eftir þessum apa. Þetta er frekar fyndið,“ segir Ragnar. 

Ragnar og Steve um það leyti sem þeir kynntust. Nú …
Ragnar og Steve um það leyti sem þeir kynntust. Nú stendur til að endurnýja kynnin, 44 árum síðar. Ljósmynd/Aðsend/Samsett

Fjölskyldan bjó um þriggja ára skeið á Máritíus. Steve flutti til Englands ásamt fjölskyldu sinni um svipað leyti og Ragnar flutti heim til Íslands og hafa þeir því hvorki heyrst né sést í um 44 ár. En hefur Ragnar áhuga á að endurnýja kynnin við æskuvininn? „Já, ég get alveg hugsað mér að hitta hann, það gæti bara verið gaman.“

Til að fylgja upprunalegu áætluninni, að koma Steve á óvart á afmælisdaginn, hefur Jean því tekið við keflinu og mun hún sjá til þess að Steve og Ragnar nái saman á ný.

Ragnar ásamt yngri systur sínum í fjallgöngu snemma á 8. …
Ragnar ásamt yngri systur sínum í fjallgöngu snemma á 8. áratugnum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert