„Ljóst að traustið var ekki fyrir hendi“

Stjórnarmyndunarviðræðum Framsóknarflokks, VG, Samfylkingar og Pírata var slitið í dag.
Stjórnarmyndunarviðræðum Framsóknarflokks, VG, Samfylkingar og Pírata var slitið í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er alveg ljóst að traustið var ekki fyrir hendi og það er náttúrlega undirstaðan að þessu,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, pró­fess­or í stjórn­mála­fræði við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri, í sam­tali við mbl.is. Greint var frá því nú í hádeginu að Framsóknarflokkurinn hefði slitið stjórnarmyndunarviðræðum Framsóknar, VG, Samfylkingar og Pírata.

„Auðvitað er ekki gott að vera með eins manns meirihluta, en það var greinilega ekki nægjanlegt traust fyrir hendi einhverra hluta vegna og það er það sem hefur gert út um þetta.“ Grétar segir það heyrast á máli framsóknarmanna að þeir hafi ekki treyst Pírötum.

Sigurður Ingi hafi ekki gefið upp neinar málefnalegar ástæður fyrir viðræðuslitunum og það bendi alveg eins til þess að flokkurinn hafi í sjálfu sér ekki endilega verið ósáttur við það sem lá á borðinu. „Það gæti bent til þess að þetta þurfi ekki endilega að þýða að Framsóknarflokkurinn sé að fara að snúa sér í hina áttina og fara til hægri,“ segir hann.

Vill raða þessu upp öðruvísi

Grétar rifjar upp að Sigurður Ingi hafi áður sagt að hann vilji breiðari skírskotun og sterkari stjórn, sem gæti bent til þess að hann vilji líka fá einhverja hægriflokka að viðræðuborðinu. Málið þar sé þó væntanlega ekki að fjölga eingöngu um einn frá þeim fjórum flokkum sem tóku þátt í viðræðunum um helgina, því ólíklegt verði að telja að það hefði þurft að slíta viðræðunum til að fjölga flokkunum upp í fimm.

„Það er greinilegt að hann vill raða þessu upp einhvern veginn öðruvísi,“ segir Grétar.

Ekki muni heldur duga að fá Flokk fólksins inn í viðræðurnar í stað Pírata og þá telur Grétar Viðreisn ólíklegan kandídat. „Eitthvað vill hann þó sækja til hægri og þá mögulega eitthvert mynstur sem Sjálfstæðisflokkurinn eða mögulega Miðflokkurinn væru með í.“ Miðflokkurinn sé þó væntanlega ekki fyrsti kosturinn sem Sigurður Ingi horfi til, þó að slík stjórn hefði 33 þingmanna meirihluta. „Einn möguleiki hjá framsóknarmönnum væri svo að fá VG með sér inn í stjórn með Sjálfstæðisflokknum,“ segir hann.

„Sigurður Ingi er búinn að segja að boltinn sé hjá Katrínu, en hvað meinar hann með því?“ spyr Grétar. „Svo virðist sem það sé ekki málefnalegur ágreiningur sem veldur þessu og þá er heldur ekkert sem segir að Sigurður Ingi sé ekki að horfa á vinstriflokkana inni í einhverri mynd. En auðvitað veit maður ekki alveg hvað menn eru að plotta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert