Eldur í álverinu á Reyðarfirði

Álverið í Reyðarfirði.
Álverið í Reyðarfirði.

Slökkvilið Fjarðabyggðar var kallað út á sjötta tímanum í nótt vegna elds í steypuskála álversins á Reyðarfirði.

Að sögn Þorbergs Haukssonar slökkviliðsstjóra kom eldurinn upp í tæki sem kallast skimmer og tekur á móti áldeiglum. Hann segir að væntanlega hafi glussaslanga farið í sundur eða leki komið að henni með þeim afleiðingum að það kviknaði í glussanum. 

Mikill eldur kom upp enda bæði ál og glussi eldsmatur og hitinn mikill. Menn sem voru á vakt í steypuskálanum reyndu að slökkva eldinn en vegna þess hversu mikill hann var og eins mikill reykur var óskað eftir aðstoð frá slökkviliðinu. 

Slökkviliðsmenn fóru inn í skálann í reykköfunarbúningum og gekk greiðlega að slökkva eldinn þrátt fyrir erfiðar aðstæður en aðeins var hægt að nota duft við slökkvistarfið þar sem ekki er farið með vatn inn í aðstæður sem þessar. 

Engin meiðsl urðu á fólki sem var við vinnu í skálanum þegar eldurinn kom upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert