FA segir fyrirtækjum ekki sýnd sanngirni

Atvinnuhúsnæði. Félag atvinnurekenda segir fyrirtækjum ekki sýnd sanngirni við álagningu …
Atvinnuhúsnæði. Félag atvinnurekenda segir fyrirtækjum ekki sýnd sanngirni við álagningu fasteignagjalda. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Samkvæmt úttekt Félags atvinnurekenda, áforma einungis þrjú af tólf stærstu sveitarfélögum landsins að lækka fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði til að mæta miklum hækkunum á fasteignamati. Tíu sveitarfélög af þeim tólf stærstu ætla að lækka fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði til að mæta hækkunum fasteignamats. Þetta kemur fram í úttekt á vefsíðu FA.

Þar segir að eingöngu Hafnarfjarðarbær, Kópavogsbær og Akraneskaupstaður áformi að lækka fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði frá áramótum. Hafnarfjörður hyggst lækka þau mest eða um 0,08 prósentustig, Akranes um 0,03 prósentustig og Kópavogur um 0,02 prósentustig.

Fasteignamat er ákvarðað af Þjóðskrá Íslands og miðast við verðlag fasteigna. Nýtt fasteignamat Þjóðskrár, sem birt var í júní, hækkar samanlagt fasteignamat allra íbúða í landinu um 15,5% á milli ára.

Félag atvinnurekenda hefur skrifað sveitarfélögum landsins og hvatt þau til þess að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda af atvinnuhúsnæði, til að mæta þessum hækkunum. Fram kemur á vefsíðu FA að í bréfinu hafi verið farið yfir hvernig tekjur sveitarfélaga af fasteignagjöldum fyrirtækja hafi hækkað undanfarin ár vegna hækkana fasteignamats.

Álagning fasteignagjalda árið 2018 samkvæmt úttekt FA. Rauðar tölur gefa …
Álagning fasteignagjalda árið 2018 samkvæmt úttekt FA. Rauðar tölur gefa til kynna lækkanir á álagningarprósentu. Félag atvinnurekenda

Vonbrigði að fyrirtækjum sé ekki sýnd sanngirni

FA segir tekjur Reykjavíkurborgar hafa hækkað um 1,8 milljarða á árunum 2013-2016, eða um tæp 24%. Þetta segir félagið að sé afar íþyngjandi fyrir fyrirtæki og var skorað á sveitarfélögin að taka mið af þessum veruleika við gerð fjárhagsáætlana næsta árs.

Við því virðist ekki hafa verið orðið nema að litlu leyti. Það segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, að séu veruleg vonbrigði.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. mbl.is/GudmundurKR

„Við fögnum vissulega þeim lækkunum sem bæjaryfirvöld í Hafnarfirði, Kópavogi og á Akranesi boða. Í mörgum öðrum stórum sveitarfélögum er eigendum íbúðarhúsnæðis sýnd sú sanngirni að lækka álagningarprósentuna til að mæta miklum hækkunum á fasteignamatinu. Við höfum ekki heyrt nein skynsamleg rök fyrir að ekki eigi að sýna eigendum atvinnuhúsnæðis sömu sanngirni. FA skorar á sveitarfélögin að gera breytingar við meðferð frumvarpa að fjárhagsáætlunum í sveitarstjórnum og sýna fyrirtækjunum sömu sanngirni og eigendum íbúðarhúsnæðis,“ er haft eftir Ólafi á vefsíðu FA.

Efast um heimild til hámarksálagningar

Flest sveitarfélög leggja á fasteignagjöld sem nema 1,65% af fasteignamati, sem er það hámark sem lög leyfa. Grunnprósenta fasteignagjalds er þó 1,32% af fasteignamati, en heimild er í lögum um tekjustofna sveitarfélaga að leggja 25% álag ofan á grunnprósentuna.

Félag atvinnurekenda hefur ritað sveitarfélögum og farið fram á rökstuðning fyrir beitingu þessa 25% álags. Á vefsíðu FA segir að þau sveitarfélög sem hafi svarað hafi ekki sett fram neinn efnislegan rökstuðning fyrir ákvörðun sinni og hafi ekki vísað í neina kostnaðarútreikninga sem sýni fram á að beiting álagsins sé nauðsynleg vegna kostnaðar við að veita fyrirtækjum þjónustu.

Þannig hefur stærsta sveitarfélagið, Reykjavíkurborg, rukkað hámarksfasteignagjald á atvinnuhúsnæði. Munu fyrirtæki innan raða FA hafa skoðað grundvöll málsóknar gegn borginni, þar sem látið verði reyna á ýmsa þætti útreiknings og álagningar fasteignagjalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert