Fasteignamat hækkar um 15,5%

Í greiningu Hagfræðideildar Landsbankans um fasteignamatið kemur fram að meðalhækkun …
Í greiningu Hagfræðideildar Landsbankans um fasteignamatið kemur fram að meðalhækkun á mati íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu er 16,5% og er hækkun innan flestra svæða þess 15-20%. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í síðustu viku birti Þjóðskrá Íslands nýtt fasteignamat sem tekur gildi 31. desember 2017 og gildir fyrir árið 2018. Nýja fasteignamatið miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2017. Íbúðaverð hefur nú þegar hækkað töluvert frá því í febrúar og því stefnir í að fasteignamatið hækki töluvert á ný á næsta ári.

Samanlagt fasteignamat allra íbúða á landinu, sem eru rúmlega 130 þúsund, hækkar samtals um 15,5% frá árinu 2017 og verður rétt tæpir 5.000 milljarðar króna, samkvæmt nýju fasteignamati fyrir næsta ári. Hækkunin samsvarar ríflega tvöfaldri heildarlandsframleiðslu síðasta árs.

Langminnst hækkun í Vestmannaeyjum

Í greiningu Hagfræðideildar Landsbankans um fasteignamatið kemur fram að meðalhækkun á mati íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu er 16,5% og er hækkun innan flestra svæða þess 15-20%. Innan höfuðborgarsvæðisins er meðalhækkunin mest 18,8% á Seltjarnarnesi og minnst 13,7% í Garðabæ. Sé litið á stærstu bæi landsins er hækkunin mest á Akranesi, eða 18,8%, og langminnst í Vestmannaeyjum, eða 3,9%. Hækkunin í Árborg og Reykjanesbæ er mjög áþekk því sem gerist á höfuðborgarsvæðinu. Af öllum bæjum landsins hækkar fasteignamat íbúða mest á Húsavík, eða um 42,2%.

Sé litið á einstök hverfi innan höfuðborgarsvæðisins er hækkunin mest í Blesugróf, 27,8%, en einnig er hækkunin mikil í Breiðholtshverfunum, í kringum 20%. Minnsta hækkunin á höfuðborgarsvæðinu er í Urriðaholti í Garðabæ, eða 5,7%, og á Arnarnesi, eða 9,8%.

Skatthlutfallið á íbúðarhúsnæði lægst í Reykjavík og á Seltjarnarnesi

Deildin bendir á að gagnrýni hafi þegar komið fram af hálfu fasteignafélaganna þriggja sem skráð eru í Kauphöllinni um að fasteignaskattur hafi ekki verið lækkaður hlutfallslega til að koma til móts við miklar hækkanir á fasteignamati atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu á síðastliðnum tveimur árum.

„Það sama má segja um fasteignagjöldin af íbúðarhúsnæði. Fasteignagjöld eru annar af megintekjustofnum sveitarfélaganna á eftir útsvari og eru mjög mismunandi eftir sveitarfélögum,“ segir í greiningunni en sé litið á skattprósentur í einstökum sveitarfélögum sést að þær eru misháar.

Kemur fram að á höfuðborgarsvæðinu er skatthlutfallið á íbúðarhúsnæði lægst 0,2% í Reykjavík og á Seltjarnarnesi og hæst 0,34% í Hafnarfirði. Hafa ber í huga að sveitarfélögin innheimta ýmis fleiri gjöld sem tengjast fasteignum þannig að þessi hlutföll þurfa ekki að segja alla söguna um álögur á eigendur fasteigna.

„Í stærri bæjum á landinu er sagan sú sama, gjöldin á íbúðarhúsnæði eru mjög mismunandi. Af þessum bæjum eru gjöldin lægst 0,3% í Árborg og hæst í Reykjanesbæ og Fjarðabyggð þar sem þau eru 0,5%. Fasteignaverð er jafnan lægra utan höfuðborgarsvæðisins en innan þess og því eru upphæðirnar sem fólk borgar miðað við tekjur kannski ekki svo mismunandi,“ segir í greiningunni.

„Líkt og gerst hefur með atvinnuhúsnæðið er þess að vænta að kröfur verði uppi um að sveitarfélögin lækki álagsprósentur sínar á íbúðarhúnæði til þess að koma til móts við eigendur fasteigna þegar líða tekur á árið og sveitarfélögin fara að birta fjárhagsáætlanir sínar. Sveitarstjórnarkosningar verða á næsta ári og því líklegt að álögur á fasteignaeigendur muni bera á góma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK