„Má segja að ríkið sleppi með þetta“

Davíð Þór Björgvinsson lagaprófessor.
Davíð Þór Björgvinsson lagaprófessor. mbl.is/RAX

„Þessi niðurstaða kemur ekki á óvart. Það má segja að ástæðan sé sú að umfang málsins fyrir Mannréttindadómstólnum er miklu minna en lagt var upp með í kærunni.“

Þetta segir Davíð Þór Björgvinsson, lagaprófessor við Háskóla Íslands og fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, í samtali við mbl.is, inntur eftir viðbrögðum við dómi Mannréttindadómstólsins í morgun í máli Geirs Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, gegn íslenska ríkinu vegna málshöfðunar þess gegn honum fyrir landsdómi og niðurstöðu dómsins í framhaldinu. Mannréttindadómstóllinn sýknaði ríkið af kærunni.

„Dómurinn gerir ráð fyrir því að Geir sé ekki þolandi mögulegs brots á ákvæðum Mannréttindasáttmálans nema varðandi ákæruliðinn sem lýtur að því að hann hafi ekki haldið ríkisstjórnarfundi um mikilvæg málefni. Það gerir það að verkum að að svo miklu leyti sem það kunna að hafa verið brotin á honum einhver réttindi, þá sérstaklega samkvæmt 6. grein sáttmálans um réttláta málsmeðferð, þá skipti það ekki máli hvað varðar aðra ákæruliði sem annaðhvort var vísað frá eða hann sýknaður,“ segir Davíð Þór.

Með öðrum orðum sé Geir ekki talinn þolandi brots vegna annarra ákæruliða af þessum sökum. Þegar Mannréttindadómstóllinn taki málið til skoðunar þá afmarkist það eingöngu við þennan ákærulið sem sakfellt hafi verið fyrir og málsmeðferðina vegna hans. 

Ekki dómstólsins að túlka stjórnarskrána upp á nýtt

„Þegar búið er að draga málið svona mikið saman þá verður niðurstaðan sú að ekki sé um að ræða brot á 6. grein. Hvorki er varðar meðferð málsins áður en það kom í landsdóm né heldur fyrir landsdómi. Að svo miklu leyti sem málsmeðferðin kann að hafa verið aðfinnsluverð áður en málið kom til landsdóms þá var bætt úr þeim ágöllum í meðferð málsins fyrir landsdómi,“ segir Davíð Þór enn fremur.

Varðandi það atriði að landsdómur hafi ekki getað talist óvilhallur þá sé þeim röksemdum hafnað með hliðstæðum rökum í svonefndu Hansen-máli í Danmörku. „Þá stæði eftir þetta atriði varðandi 17. grein stjórnarskrárinnar. Þar er umkvörtunarefnið það að ekki sé um að ræða nægjanlega gilda refsiheimild samkvæmt 7. greininni. Það sé sem sagt ekki hægt að refsa fólki nema það sé gild heimild í landslögum til þess.“

Dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að um gilda refsiheimild sé að ræða og það sé í rauninni íslenskra dómstóla að túlka hana og ekki hlutverk hans að túlka hana upp á nýtt. Túlkun landsdóms á þessu ákvæði í þessu tilviki hafi verið alveg í samræmi við orðalag ákvæðisins og hafi því ekki þurft að koma sérstaklega á óvart. Það sé kannski kjarninn í röksemdafærslu dómstólsins hvað varði þetta atriði.

„Fyrir vikið er íslenska ríkið líka sýknað af þessum lið í kæru Geirs til dómstólsins. Dómurinn er annars auðvitað mjög langur og þar eru athugasemdir sem eftir atvikum má skilja þannig að menn hafi ekki endilega verið fyllilega sáttir við þetta ferli allt saman,“ segir Davíð Þór. Þannig hafi kæra Geirs í raun snúið að atriðum sem landsdómur hefði í raun verið búinn að kippa í lag. Það er ein leið til að orða þetta.“

Ekki talið pólitískt „að því marki að það hafi skipt máli“

Davíð Þór segir að ef Mannréttindadómstóllinn hefði fjallað um málið í víðara samhengi hefði dómurinn auðvitað orðið miklu umfangsmeiri en það sé ekki þar með sagt að niðurstaða hefði orðið önnur. Varðandi atkvæðagreiðsluna á Alþingi orði dómstóllinn það svo að hún hafi ekki verið pólitísk að því marki að það hafi skipt máli. Þannig hafi ákæruliðurinn sem sakfellt var fyrir ekki getað átt við aðra en Geir.

„Ef það hefði hins vegar verið dæmt fyrir fleira í landsdómi þá hefði þetta sjónarmið að atkvæðagreiðslan hefði verið pólitísk kannski fengið meira vægi. En þar sem málið skreppur svona mikið saman má segja að ríkið sleppi með þetta. Spurningin um pólitíska eða ekki pólitíska atkvæðagreiðslu verður svolítið málinu óviðkomandi vegna þess að þessi ákæruliður gat aldrei átt við um neinn annan,“ segir Davíð Þór.

Spurður um framhaldið segir Davíð Þór að hægt sé að áfrýja málinu til yfirdeildar Mannréttindadómstólsins. Geir geti óskað eftir því en þá leggi nefnd dómara mat á það hvort málið sé þess eðlis að það réttlæti það. Aðeins lítill hluti mála fari þangað. Ekki sé sjálfstæður réttur til að áfrýja. Mál séu einkum valin á grundvelli þess hvort undir séu einhver mikilvæg grundvallaratriði.

„Mér þykir ekkert sérstaklega líklegt að jafnvel þó að látið verði reyna á það að þetta mál verði samþykkt þar. En það er hins vegar ekki hægt að horfa fram hjá því að málið er pólitískt nokkuð veigamikið og þrátt fyrir þessa niðurstöðu þá eru kannski ákveðnir þættir í þessu ferli og kerfi sem við höfum um þetta gagnrýnisverðir. Þannig að það er möguleiki út frá einhverjum slíkum sjónarmiðum að málið yrði samþykkt þarna af yfirdeildinni þó að ég telji það ekki líklegt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert