„Þetta voru ákaflega vímaðir menn“

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Júlíus

Mönnunum tveimur sem réðust á fimm ára barn í aftursæti bifreiðar við gatnamót Laugavegs og Snorrabrautar síðdegis í gær hefur verið sleppt. Þeir voru yfirheyrðir í dag en ekki þótti ástæða til að krefjast þess að þeir yrðu hnepptir í gæsluvarðhald.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að þarna hafi verið á ferðinni menn sem sökum vímu hafi ekkert vitað hvað þeir voru að gera. Hann segir að við yfirheyrslur í dag hafi lítið komið fram um ástæður þessa verknaðar. „Það er ekkert sem bendir til þessu að þeir hafi ætlað að veitast að þessu barni. En það er afar dapurlegt að fólk sem er á ferðinni eigi hættu á þessu,“ segir hann.

Um er að ræða tvo Íslendinga um þrítugt. Þeir opnuðu, í síðdegisumferðinni í gær, afturhurð á bíl sem í voru móðir og barn. Konan skipaði þeim að loka hurðinni og við því urðu þeir. Þegar hún hafði ekið spölkorn sá hún að sonur hennar, drengur á fimmta aldursári, var blóðugur í framan. Hann hafði verið laminn í andlitið, svo úr blæddi.

Mennirnir veittu mikla mótspyrnu við handtöku en segir að þeir hafi verið samvinnuþýðari þegar þeir þóttu „skýrslutækir“. Spurður hvort þeir hafi verið undir áhrifum áfengis eða annarra efna svarar Grímur því til að þó niðurstöður blóðrannsóknar liggi ekki fyrir sé ljóst að þeir hafi verið undir áhrifum einhvers annars en áfengi: „Þetta voru ákaflega vímaðir menn“.

Hann segir að það hafi verið mat lögreglu að það hafi hvorki þjónað hagsmunum almennings né rannsóknarinnar að krefjast gæsluvarðhalds yfir mönnunum. Þeir ganga því lausir. Hann segir að málið teljist upplýst þó rannsókn þess sé ekki að fullu lokið. Þegar rannsókninni lýkur verður málið sent til ákærusviðs þar sem ákveðið verður hvort þeir verði sóttir til saka fyrir athæfi sitt.

Mennirnir hafa báðir komið við sögu lögreglu áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert